Veðurstofa Íslands fékk mörg símtöl í gærkvöldi, greinilega var ekki góður ferðadagur til að taka hjólhýsin úr bænum. Óli Þór Árnason, vakthafandi veðurfræðingur, segir að hvassviðrið hefði ekki átt að koma ökumönnum á óvart. Það væri búið að spá hvassri norðanátt á öllu landinu.

„Það var alltaf vitað að veðrið myndi versna seinnipartinn. Það þýðir ekkert að stökkva í bílinn eftir vinnuna og rjúka af stað hugsanalaust,“ segir Óli Þór í samtali við Fréttablaðið. Aðspurður segir hann marga hafa hringt á Veðurstofuna í gærkvöldi, það hafi ekki verið góður ferðadagur til að taka hjólhýsin úr bænum ef marka má símtölin.

„Hjólhýsi hafa selst vel í faraldrinum og það eru greinilega margir að stíga sín fyrstu skref í hjólhýsabransanum. Sumir brenndu sig illa í gær. Kjalarnesið var slæmt, um klukkan 18 var hvassast en þá var meðalvindur í 22 metrum á sekúndu og sterkasta hviðan um 37 metrar á sekúndu undir Ingólfsfjalli. Þar lentu nokkrir í hremmingum.“

Veðurfræðingurinn segir nauðsynlegt fyrir alla að kíkja á veðurspá áður en lagt er af stað í helgarferðina og að gott sé líka að fylgjast með rauntímaupplýsingum frá Vegagerðinni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk einnig tilkynningu um foktjón um klukkan hálf átta í gærkvöldi eftir að nokkur hjólhýsi tókust á loft á bílaplaninu við verslun Útilegumannsins við Vesturlandsveg. Tvö hjólhýsi ultu og eitt fauk í annað.

Lögreglan á Vesturlandi lokaði Snæfellsnesvegi vegna slyss rétt fyrir átta í gærkvöldi þar sem hjólhýsi fauk út af veginum móts við Erlulund, um átta kílómetra austan við Vegamót. Þar var meðalvindur um 25 metrar á sekúndu þar sem kviðurnar slógu síðdegis og fram á kvöld upp undir 40 metra á sekúndu.

Óli Þór segir að hættulegar aðstæður geta einnig skapast þar sem er lítill vindur með skörpum hviðum. Hann bendir ferðamönnum á að athuga með tryggingar á ferðavögnum, þar sem flest tryggingafélög eru með lágan þröskuld þegar kemur að foktjóni.

„Þetta er svo fislétt að það fýkur alveg um leið í svona hviðum. Það er sárt að borga af hjólhýsinu í nokkur ár eftir að það er komið á haugana.“