„Það er hægt að finna bit í hverjum hníf. Það þarf bara að veita þeim smá umhyggju,“ segir hinn þrettán ára Ýmir Hafliðason Garcia sem vakið hefur athygli með hnífabrýningum. Mælt var með Ými í hverfagrúppunni 108. Amerískur fjölskylduvinur kenndi guttanum réttu handtökin.

Edwin Demper, sem er Hollendingur frá Utrecht, býr nú og starfar sem framhaldsskólakennari í New York og brýnir og smíðar hnífa í frístundum. Hann kom til landsins og gaf Ými svissneskan hníf og brýningarstein til að halda bitinu við.

„Ég hef verið að brýna fyrir fjölskylduna síðan sem hefur undið upp á sig. Ætli ég hafi ekki brýnt fjölskylduhnífana svona þúsund sinnum,“ segir Ýmir og hlær. „Ég fékk góða kennslu frá honum en ég var mjög ungur þannig að ég gleymdi nú alveg smá hluta. En grunnurinn festist. Lærdómurinn kemur frá honum en svo fór ég á YouTube og fann frekari upplýsingar.“

Ýmir er stoltur af því að stuðla að endurvinnslu og minni mengun. „Ég er með hér hjá mér núna tólf hnífa sem hefðu allir getað endað á haugunum. Þetta kennir líka ungu fólki að endurnýta hlutina eins og gert var í gamla daga. Það er mengandi að gera hnífa og óþarfi að henda því sem hægt er að endurnýta auðveldlega.“

Ýmir segir að hann geti með þessu safnað sér fyrir keppnis- og skólaferðalögum framtíðarinnar en hann er á fullu með SR í íshokkí.

„Ég tók sextán hnífa um síðustu helgi og í vikunni er ég með tólf hnífa. Það er mjög mismunandi hvað ég er lengi með hvern hníf, það fer bara eftir ástandinu á þeim. Núna tók ég tíu mínútur með vel farinn hníf en stundum fer þetta upp í klukkutíma ef hnífurinn er illa farinn. Við keppum mikið á Akureyri og þær ferðir eru dýrar fyrir mig þannig að þetta er góð viðbót.“

Ýmir var fjórði stigahæstur á landinu í U16 og ellefti stigahæstur í U18 á síðasta tímabili þrátt fyrir að vera einungis þrettán ára. En hann brýnir samt ekki skautana sína.

„Ég er fæddur í Kína og síðustu árin sem ég bjó þar bjuggum við nálægt verslunarmiðstöð og þar var skautasvell inni. Ég fór einu sinni með mömmu á skauta og sá þar tvo krakka vera að skauta ógeðslega hratt fram og til baka í svona kúl búningi. Þá kom áhuginn,“ segir Ýmir

„Þegar við fluttum til Íslands fór ég á námskeið hjá Birninum sem nú er Fjölnir og þannig byrjaði íshokkíið,“ segir brýnirinn ungi sem athugar bitið á hverjum hníf eftir að hafa unnið með þá.

„Það eru alls konar leiðir til að prófa bitið aftur á hnífum. Til dæmis með pappír. Ef hann sker pappírinn hreint er það gott bit. Það eru miklir pappírsklumpar um allt húsið sem gleðja mömmu og pabba mjög mikið,“ segir Ýmir og hlær. „En ég tek til eftir mig. Það er góð regla að taka til eftir sig. Það er held ég bara góð regla í lífinu.“