Langþráð yfirtaka sádí- arabískra fjárfesta, með krónprinsinn Mohammed Bin Salman í forsvari, á Newcastle United gekk í gegn í gær. Með kaupunum verður liðið langríkasta lið heims og skákar liðum á borð við Manchester City og Paris St. Germain, sem einnig voru keypt af fjárfestum frá Arabíuskaga.

„Við í stuðningsmannafélagi Newcastle tökum við nýjum um­sóknum í klúbbinn,“ segir Steinþór Hróar Steinþórsson, eða Steindi jr. Segir hann klúbbinn telja um 40 þúsund meðlimi í dag, en gerir ráð fyrir að hann stækki hratt eftir fréttir gærdagsins.

„Ég spái því að við fáum dolluna heim og vinnum líka bikarinn og svo meistaradeildina. Við munum vinna allt sem hægt er að vinna,“ segir Steindi bísperrtur. Gerir hann ráð fyrir að fyrstu titlarnir komi í hús strax á þessu tímabili.

Í dag er liðið í fallbaráttu og félagaskiptaglugginn opnast ekki fyrr en í janúar. Steindi segir borðleggjandi að kaupa reynslumikla leikmenn þá. „Með allan þennan pening finnst mér líklegt að þeir taki Alan Shearer aftur inn sem senter. Það er eina vitið. Og ekki væri verra að fá Andy Cole með.“