Ríkis­stofnunin Ís­lenskar orku­rann­sóknir (ÍSOR) hafa samið við ONGC, eitt stærsta orku­fyrir­tæki Ind­lands, um rann­sóknir til undir­búnings jarð­varma­orku­vers í Kasmír-héraði. Samningurinn felur meðal annars í sér undir­búning jarð­borana, vöktun og úr­vinnslu gagna.

Verk­efnið markar tíma­mót því ekkert jarð­varma­ver er til staðar í Ind­landi og ef það gengur vel gætu fleiri risið á komandi árum eða ára­tugum.

Boranirnar fara fram í Puga-dalnum í Lada­kh-héraði. Að­stæður eru krefjandi því svæðið er 4.400 metrum yfir sjávar­máli, ná­lægt Himala­ya-fjall­garðinum.

Verk­fræði­stofan Verkís mun koma að verk­efninu sem undir­verk­taki ÍSOR. Þessi tvö fyrir­tæki hafa áður starfað í Ind­landi, en það verk­efni laut að hús­hitun.

Kasmír er svæði sem Ind­verjar og Pakistanar hafa háð mörg stríð og skærur vegna, allt frá stofnun ríkjanna á fimmta ára­tug síðustu aldar. Ind­verjar stjórna þremur héruðum Kasmír, Pakistanar tveimur og Kín­verjar tveimur.