Banda­ríska leyni­þjónustan hefur frá því í september 2017 leigt litla stúdíó­í­búð í Was­hington, D.C., beint á móti heimili I­vönku Trump og Jar­ed Kus­hner, svo starfs­menn leyni­þjónustunnar sem vinna fyrir þau geti farið á salernið og haft skrif­stofu­pláss. Hjónin eru sögð hafa bannað leyniþjónustunni að nota öll klósettin sem eru á heimili þeirra. Heimili þeirra er í heild um 500 fer­metrar, með sex svefn­her­bergjum og sjö salernum. Fjallað er um málið í öllum helstu er­lendu miðlum en fyrst var greint frá á Was­hington Post í gær.

Heimili Kushner-Trump hjónanna er í Kal­orama-hverfi í Washington, D.C sem vin­sælt er meðal diplómata og hátt­settra em­bættis­manna. Auk þeirra hjóna, á fyrr­verandi for­seti Banda­ríkjanna, Barack Obama, heimili í hverfinu. Í um­fjöllun Was­hington Post kemur fram að leyni­þjónustan hafi varið mánuðum í að finna not­hæfa salernisaðstöðu og hafi í milli­tíðinni notað útikamar en einnig salerni á heimilum bæði Obama og vara­for­setans, Mike Pence, sem einnig býr nálægt.

Heimili Ivönku Trump og Jared Kushner í Kalorama-hverfi.
Fréttablaðið/Getty

18 milljóna klósettferð

Þetta hefur ekki verið ódýr salernis­ferð fyrir leyni­þjónustuna en sam­kvæmt Was­hington Post hefur banda­ríkja­stjórn greitt 3.000 Bandaríkjadali á mánuði, sem sam­svarar um 387 þúsund ís­lenskum krónum, á mánuði eða alls um 12 milljónum ís­lenskra króna frá því í septem­ber 2017 til að greiða fyrir stúdíó­í­búðina, svo starfs­menn leyni­þjónustunnar komist á klósettið.

Tals­maður Hvíta hússins hefur þver­tekið fyrir það að Kus­hner-Trump hafi meinað leyni­þjónustunni að­gangi að heimilinu og vísað til þess að leyni­þjónustu­starfs­mönnum sé yfir­leitt ekki hleypt inn á heimilin. Aðrir sem starfa með lög­reglunni hafa sagt það ekki rétt og að þeim hafi ekki verið hleypt inn að beiðni fjöl­skyldunnar.

Tals­kona leyni­þjónustunnar hafnaði því í fyrstu að tjá sig um málið en eftir að fréttin var birt barst Was­hington Post póstur frá henni þar sem hún sagði leyni­þjónustuna reyna að hafa sem minnst á­hrif á heimilin sem þau starfa á og vernda og í sam­ræmi við þá stefnu biðji þau ekki um að­gang að salernir­að­stöðu á heimilum.

„I­vanka Trump og Jar­ed Kus­hner hafa ekki neitað leyni­þjónustunni að­gengi að heimili þeirra til að nota salernis­að­stöðu,“ sagði í tölvu­póstinum.

Heimilið er stórt og öryggis gætt á lóðinni.
Fréttablaðið/Getty

Ekki óvanalegt að leyniþjónustan fari inn á heimili - en fá yfirleitt aðstöðu

Í um­fjölluninni segir að það sé alls ekki ó­vana­legt að leyni­þjónustu­mönnum sé ekki hleypt inn á heimili fólk sem þau vernda en að yfir­leitt hafi þeim staðið til boða bíl­skýr, garð­hús eða ein­hver að­staða á jörðinni. Það sé veru­lega ó­vana­legt að menn hafi þurft að leita til annara verk­efna, eins og þau hafa þurft að gera núna, með því að fara til bæði Pence og Obama.

Þá segir að rask vegna að­gerðanna hafi verið tölu­vert í hverfinu sem hafi angrað ná­granna þeirra en mörg sendi­ráð er að finna þar auk þess sem þekktir ein­staklingar búa í hverfinu, sem dæmi Jeff Bezos, eig­andi og stofnandi Amazon.com.

Þá voru ná­grannarnir sér­stak­lega pirraðir þegar kamarinn var settur upp fyrir utan húsið en þá var þeim, að sögn eins fyrr­verandi ná­granna, ekki heimilt að ganga þeim megin gang­stéttarinnar. Kamarinn var fjar­lægður eftir mót­mæli ná­grannanna. Eftir það notuðu þeir salerni í bíl­skúr heima hjá Obama. Það var þó að­eins lausn sem virkaði í stuttan tíma og eftir að starfs­maður sem vann í leyni­þjónustunni hjá Kus­hner-Trump skildi eftir „ó­skemmti­legan sóða­skap“ bannaði leyni­þjónusta Obama þeim að koma aftur. Þá hófu þeir að aka um 1,6 kíló­metra heim til Pence en ef þeir höfðu ekki tíma til þess fóru þeir á nær­liggjandi spítala.

Heimili Obama-hjónanna. Leyniþjónustan fékk um stund að nota salernisaðstöðu í bílskúrnum hjá þeim.
Fréttablaðið/Getty

Leigðu kjallarann á móti

Að lokum bönkuðu þeir upp á hjá konunni sem býr á móti Kus­hner-Trump, Kay Kendall. Hún er for­maður lista­nefndar Was­hington, D.C og er gift stofnanda AOL Jack Davies. Þetta var í septem­ber 2017. Kendall var með auka­í­búð í kjallaranum sem hún breytti ör­lítið og endaði svo á að leigja leyni­þjónustunni svo þay hefðu að­stöðu fyrir sig.

„Það var mjög ljóst að þá vantaði ein­hvern stað til að fara í sturtu, fara í pásu og nota salernis­að­stöðuna eða borða há­degis­mat,“ sagði Kendall í sam­tali við Was­hington Post.

Leigu­samningurinn tók gildi í septem­ber 2017 og rennur út í septem­ber á þessu ári. Þá mun leyni­þjónustan hafa borgað 144 þúsund dali eða um 18 milljónir ís­lenskra króna. Ekki er ljóst hversu lengi parið hyggst búa í húsinu eftir að Trump yfir­gefur em­bætti for­setans í næstu viku.

Hægt er að lesa um­fjöllun Was­hington Post hér. Einnig var stuðst við umfjöllun CNN og Vanity Fair við gerð fréttarinnar.

Kjallarinn sem leyniþjónustan leigir er í þessu húsi.
Fréttablaðið/Getty