„Það er nánast ólíft úti í logni,“ segir Þórgnýr Dýrfjörð forstöðumaður Akureyrarstofu. Spáð er hátt í 20 stiga hita á Akureyri um helgina.

Þórgnýr telur líklegt að bærinn fái mikið af gestum þessa helgina. „Ég held að það sé allt að fyllast, sé ekki betur.“

„Ég held að það séu margir að nýta helgina í fyrstu útilegu sumarsins,“ segir Þórgnýr. Hann segir marga hafa gert sér leið til Akureyrar seinustu helgi og að nú stefni í enn betra veður en var þá.

„Við sjáum það á umferðinni og traffíkinni á göngugötunni, maður bara finnur stemninguna byggjast upp.“

Þórgnýr bendir á að það geti gagnast gestum á leið til Akureyrar að vera búnir að skipuleggja ferðina fyrir fram enda sé mikið að gera og kóvíð-ráðstafanir í gildi á veitingastöðum og hótelum bæjarins.