Víðir Hólm Guðbjartsson, bóndi í Grænuhlíð í Arnarfirði, segir Votlendissjóð leggja dauðagildrur fyrir skepnur og fólk með frágangi þeirra á fyllingu skurða á svæðinu. Framkvæmdastjóri segir Votlendissjóðs segist miður sín yfir hvernig málið fór.
Víðir missti á dögunum rollu sem drukknað hafði í keldu þar sem fyllt hafði verið upp í skurð.
„Í þessu tilfelli, á Fífustaðadal, þá drekkja þeir heilum dal og búa til dauðagildrur. Þetta er hræðilegt fyrir bæði skepnur og fólk. Þarna drekkja þeir öllu saman,“ segir Víðir í samtali við Fréttablaðið.
Víðir segir frágang Votlendissjóðs vera með ólíkindum. Rollan hafi drukknað í grunnu vatni eftir að hún hafi fest sig í drullu. Dauði rollunnar hafi því verið dreginn á langinn.
„Það drepast alltaf kindur, en maður reynir að gera allt til að bjarga þessum greyjum,“ segir Víðir.
„Þetta er grunnt vatn þarna en það er bara orðið að drullu og hún hefur fest sig þarna og hún hefur líklegast verið í einhvern sólarhring að veslast og drepast. Hún hefur verið búin að krókna úr kulda. Þetta er hreint og klárt dýraníð,“ segir hann.
Keldan sem rollan lést í var fyllt af Votlendissjóð fyrr á þessu ári, og er því tiltölulega ný, keldan er þó ekki á landi í eigu Víðis. Hann segir að unnið hafi verið að því að fylla skurði í Fífustaðadal, þar sem rollan lést, síðasta haust og nú á þessu ári.
Víðir hefur sjálfur verið með búskap á Grænuhlíð í þrjátíu og eitt ár. Hann segir erfitt að breyta hegðun fjársins eftir svona langan tíma og því séu fyllingar í skurðina dauðagildrur. „Það er vant þessu, þú breytir ekkert fénu.“
Víðir segir að Votlendissjóður sé nánast að gera honum ókleift að búa í Grænuhlíð með sauðfé. „Það er helvíti sárt. Votlendissjóður virðist ætla að ná að knésetja mig,“ segir hann.
„Ég grátbað þá um að girða þetta, en það bara kom ekki til greina, það kom þeim ekki við,“ segir Víðir og bætir við: „Mér ber engin skilda til að girða annarra manna lönd.“ Hann segir féð sitt ganga um löndin sem samþykki landeigenda.
Miður sín yfir hvernig fór
Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs, segir það miður hvernig þarna fór en þó verði að halda til haga votlendi í Fífustaðadal var endurheimt að beiðni landeiganda svæðisins og með samningi við þau.
Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir hann ekki hafa verið farið af stað með framkvæmdir fyrr en eftir umsókn og undangengnu framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu.
Þá segir hann ekki vera áhættulaust að láta sauðfé ganga laust á Íslandi. „Áður var þarna skurðakerfi upp á 7 kílómetra sem var ekki hættulaust fyrir sauðfé,“ segir Einar í svarinu.

Hann segir spilduna hafa verið framræsta árið 1970 þan þess að hafa verið nýtt til neinnar framleiðslu og að framræsingin hafi þá eyðilagt heimkynni hundrað fugla og þróað vistkerfi annarra lífvera.
„Það verður ekki sagt nógu oft að Votlendissjóðurinn er óhagnaðardrifinn sjálfseignarsjóður sem starfar á frjálsum frumkvæðismarkaði fyrirtækja, stofnanna og einstaklinga sem vilja styðja sjóðinn í okkar vegferð sem er ekki bara stöðvun losunar koldíoxíðs á ódýran og kraftmikinn hátt heldur líka aðgerð í endurheimt vistkerfa og stuðningur fyrir náttúrulega fjölbreytileika sem aldrei verður metinn til fjár að fullu,“ segir í svarinu.
„Við sjóðinn vinnur einn starfsmaður og sjóðurinn er skipaður fólki sem þiggur ekki laun eða hlunnindi fyrir sína vinnu. Sjóðurinn nýtur engra fjárframlaga frá ríkinu.“