„Tollar eru umhverfi til að vernda innlenda framleiðslu og ekkert annað,“ segir Axel Sæland, blómabóndi á Espiflöt.

Axel á Espiflöt segir rétt að innlendir blómaframleiðendur anni ekki eftirspurn á stærstu blómadögum ársins. Alla hina dagana geri þeir það hins vegar.

„Í febrúar eru bæði konudagur og Valentínusardagur og við eigum ekki möguleika á að anna því. Hina dagana önnum við þó markaðnum,“ segir Axel.

Að sögn Axels hefur sala blóma í kringum mæðradaginn einnig farið vaxandi. Mæðradagurinn sé aðra helgina í maí og um svipað leyti sé mikið um útskriftir þannig að á þeim tíma aukist einnig innflutningur á blómum.

Á vef Félags atvinnurekenda segir að verð á innfluttum blómum sé hátt og að ástæðan sé hár tollkvóti. Í fyrra hafi verið fluttar inn nær 93 þúsund rósir sem beri 30 prósenta verðtoll og auk þess 95 króna stykkjatoll á hvert blóm.

Axel segir blóm sem framleidd eru hér á landi ódýrari en innflutt. „Heimsmarkaðsverð á blómum er margfalt í kringum Valentínusardag og innflutningur verður alltaf mun dýrari, tollar eða ekki tollar. Íslensku blómin kosta það sama í þessari viku og í þeirri síðustu og munu kosta í næstu viku.“