Flest bendir til þess að Yos­hi­hide Suga verði næsti for­sætis­ráð­herra Japans eftir að hafa hlotið yfir­burða­kosningu sem næsti leið­togi Frjáls­lynda flokksins. Eins og kunnugt er til­kynnti Shinzo Abe að hann myndi stíga til hliðar vegna heilsu­brests.

Suga hlaut 70% at­kvæða í kosningunni og verður hann að líkindum út­nefndur for­sætis­ráð­herra Japans þegar at­kvæða­greiðsla fer fram á japanska þinginu á mið­viku­dag. Suga, sem er 71 árs, var náinn sam­starfs­maður Abe meðan hann gegndi em­bætti for­sætis­ráð­herra – eins­konar hægri hönd hans.

Þó að þeir Suga og Abe hafi átt skap saman er upp­runi þeirra býsna ó­líkur eins og kemur fram í umfjöllun CNN. Abe kemur af mikilli stjórn­mála­ætt og var faðir hans til að mynda utan­ríkis­ráð­herra. Þá var hann skyldur tveimur fyrr­verandi for­sætis­ráð­herrum Japans.

Suga aftur á móti er bónda­sonur sem ólst upp í strjál­býlum sveitum Akita-héraðs áður en hann flutti til Tókýó eftir mennta­skóla­árin. Þar vann hann ýmis störf, til dæmis í pappa­verk­smiðju og á fisk­markaði, allt í þeim til­gangi að eignast peninga fyrir há­skóla­námi.

Eftir há­skóla­nám hellti Suga sér út í stjórn­mál og bauð hann sig fram í borgar­stjórnar­kosningunum í Yokohama árið 1987. Þó að hann hafi verið reynslu­lítill, ó­þekktur og með lítið sem ekkert bak­land hlaut hann kosningu eftir að hafa gengið hús úr húsi til að kynna stefnu­mál sín. Segir sagan að hann hafi heim­sótt allt að 30 þúsund heimili fyrir um­ræddar kosningar.

Stjórn­mála­skýr­endur telja að ef Suga nái kjöri muni hann ekki breyta mikið út af stefnu Abe, til dæmis hvað varðar efna­hags­mál.