Við Íslendingar eru svo gæfusamir að eiga stórkostlega náttúru innan seilingar – auðlind sem ekki aðeins skapar tekjur heldur veitir okkur ómældar unaðsstundir. Á Austurlandi er eitt skemmtilegasta göngusvæði landsins, Víknaslóðir, og þótt ekki séu þær við bæjardyr höfuðborgarbúa þá er auðvelt að komast þangað á ferðalagi um austanvert landið. Breiðavík, er eins og nafnið gefur til kynna, stærst af Víkunum og liggur milli Herjólfsvíkur í suðri og Kjólsvíkur í norðri.

Þarna var löngum tvíbýli, enda grösugt undirlendi til staðar þótt þokur hafi oft sett strik í reikninginn og útræði verið erfitt. En í góðu veðri er Breiðavík engu lík og litrík líparítfjöll Breiðavíkureldstöðvarinnar umkringja þessa vinalegu vík sem breiðir út faðm sinn mót opnu Atlantshafi. Þarna er ríkuleg flóra með risastórum fífubreiðum en fuglalíf er einnig blómlegt. Auðvelt er að komast í Breiðuvík á fjórhjóladrifnum farartækjum, t.d. yfir Gagnheiði eða ofan af Húsavíkurheiði.

Skammt frá ströndinni er snotur skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs með ágætu tjaldstæði. Þaðan er tilvalið að leggja í fjölbreyttar dagsgöngur, t.d. út í Kjólsvík, upp á Gagnheiði eða bakdyramegin upp á tind Hvítserks. Skammt frá er tígulegt fjall sem heitir því skemmtilega nafni Hákarlshaus. Við suðurenda Breiðuvíkur er síðan Sólarfjall sem gaman er að ganga á, enda útsýni yfir víkina frábært og óvenju grösugt efst með litríkri flóru.

Skemmtilegast er að heimsækja Breiðuvík gangandi með allt á bakinu en einnig er auðvelt að skipuleggja trússferð um Víkur. Er þá gengið frá Borgarfirði eystra yfir í Brúnavík og fram hjá Kjólsvík í Breiðuvík, eða öfuga leið frá Loðmundarfirði í Húsavík og þaðan í Breiðuvík. Á sumum leiðunum má fylgja torfæruslóðum en í góðu veðri er skemmtilegra að þræða gamlar gönguleiðir úr einni vík í aðra. Það er einmitt á einni slíkri, milli Kjólsvíkur og Breiðuvíkur, sem óteljandi smávötn og tjarnir gleðja augað. Þau eru umkringd sefgróðri og í góðu veðri er ekki annað hægt en að staldra við og fylgjast með tilhugalífi álfta við undirleik lóu og spóa. Í fjarska glittir síðan í litrík líparítfjöll upp af Gagnheiði og í suðri sperra sig Hvítserkur og Hákarlshaus. Þarna er auðvelt að ná fullkominni sálarró og fylla á batteríin á örfáum dögum.

Gengið í gróskumiklum gróðri með allt á bakinu upp úr Breiðuvík.
Þoka læðist inn Breiðuvík á meðan bómullarský spegla sig í snotri ?heiðartjörn.