Ethan Lindenberger, átján ára námsmaður frá Ohio í Bandaríkjunum lyfti unglingauppreisn í æðra veldi í gær þegar hann kom fyrir þingnefnd og gagnrýndi meðal annars foreldra sína fyrir að hafa, sökum fáfræði, neitað honum sem barni um allar bólusetningar.

Sjá einnig: Mikill viðbúnaður á Landspítala: Fjögur mislingasmit greind

Þingnefndin var kölluð saman vegna stóraukinnar útbreiðslu smitsjúkdóma, sérstaklega mislinga, sem má halda í skefjum með bólusetningum. Lindenberger greindi þingmönnunum frá því að eftir að hann varð sjálfráða gekk hann sjálfur í málið og hefur látið bólusetja sig gegn alls konar óværu sem hingað til hefur mátt halda í skefjum með mótefnasprautum.

„Ég fór í gegnum allt mitt líf án þess að fá fjölda bólusetninga gegn sjúkdómum eins og mislingum, hlaupabólu og jafnvel lömunarveiki. Ég ólst upp við trú móður minnar á að bólusetningar væru hættulegar,“ sagði Lindenberger við þingnefndina.

Lindenberger lýsti því hvernig hann hafi virt óskir móður sinnar að vettugi og látið bólusetja sig eftir að hafa kynnt sér óyggjandi vísindaleg rök fyrir þeim forvörnum. Hann hafi gert sér grein fyrir því að engin haldbær rök væru gegn bólusetningum og reyndi í kjölfarið að sannfæra móður sína með vísindalegum rannsóknum, sem hún hafnaði.

Sjá einnig: Mislingar jafnvel banvænir: Svona eru einkennin

Móðir hans brást við með því að leita á netinu til hópa fólks sem hafnar bólusetningum og leitað gagna máli sínu til stuðnings á samfélagsmiðlum. Lindenberger hélt því þó til haga að hann teldi þennan ótta móður sinnar sprottna af móðurástinni vegna þess að hún vildi ekki eiga á hættu að börnin hennar þróuð með sér einhverfu. Sú bábilja hefur ítrekað verið hrakin með rannsóknum og vísindalegum rökum, nú síðast einmitt með niðurstöðum langtímarannsóknar sem birtar voru í vikunni. 

Lindenberger leitaði sjálfur ráða á netinu í nóvember, að vísu á allt öðrum forsendum en móðir hans. Hann spurðist fyrir á Reddit hvernig hann gæti óhlýðnast móður sinni og fengið sprautur í Ohio.

Sjá einnig: Neyðarfundur sóttvarnalæknis vegna fjögurra mislingasmita

„Foreldrar mínir eru svolítið vitlausir og trúa ekki á bólusetningar en nú er ég orðinn átján ára þannig að hvert get ég farið til þess að láta sprauta mig?“ spurði hann á vefnum og leitaði einnig staðfestingar á því að hann væri ekki orðinn of seinn. „Get ég látið bólusetja mig á mínum aldri?“ Mánuði seinna tók hann sig til og lét bólusetja sig fyrir ýmsum kvillum.

„Ég tel fræðslu vera það allra mikilvægasta í baráttunni gegn því að sjúkdómar sem hægt er að koma í veg fyrir verði að faraldri,“ sagði Lindenberger einnig við þingnefndina.