Evrópu­sam­bandið hyggst gefa út svo­kallað Svo­kölluð „Staf­ræn græn skír­teini“ í sumar fyrir þá sem hafa verið bólu­settir eða hafa greinst með CO­VID-19 en spænsk yfir­völd hafa gefið það út að slík vott­orð muni gera öllum í­búum Evrópu kleift að ferðast til Spánar án þess að fara í sýna­töku eða sótt­kví við komuna.

Að því er kemur fram í frétt El País um málið greindi Al­fredo Gonzá­lez, yfir­maður staf­rænnar heilsu, upp­lýsinga og ný­sköpunar innan spænska heil­brigðis­kerfisins, frá því að um­rædd skír­teini yrðu bæði staf­ræn og efnis­leg, með QR kóða sem inni­heldur ýmist upp­lýsingar um bólu­setningu, fyrri sýkingu, eða nú­verandi stöðu.

Skil­yrði um fyrri sýkingu eru þau að ein­stak­lingur hafi greinst já­kvæður allt frá 11 dögum til sex mánaða fyrr. Hvað bólu­setningar varðar þurfa frekari rann­sóknir að skera úr um hversu lengi fólk er með mót­efni eftir bólu­setningu.

Að sögn Gonzá­lez er skír­teinið ekki skil­yrði fyrir ferða­lögum heldur verður það að­eins notað til þess að ein­falda ferða­lög til landsins. Spænsk yfir­völd gera ráð fyrir að 40 milljón manns muni ferðast til Spánar á árinu, tvö­falt fleiri en árið 2020 en helmingi færri en komu árið 2019.

Þrátt fyrir að margir fagni skír­teinunum hafa þó nokkrir gagn­rýnt það að fólk sem hefur verið bólu­sett sé undan­þegið sótt­varnar­að­gerðum þar sem það er ekki enn ljóst hvort bólu­settir ein­staklingar geti smitað aðra auk þess sem ný af­brigði veirunnar geta haft á­hrif á virkni.