Ríkis­stjórnar­fundur hófst klukkan hálf tíu í morgun og stóð fram til hálf eitt. Við­brögð stjórn­valda við Co­vid-far­aldrinum var meðal þess sem var á dag­skrá hans en mikill fjöldi smita greinist á hverjum degi og þann 30. júlí greindust met­fjöldi smita, 154, og í fyrra­dag voru þau 151.

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra og Svan­dís Svavars­dóttir, heil­brigðis­ráð­herra, sem ræddi við fjöl­miðla að loknum ríkis­stjórnar­fundi.

Reglurnar um skimun á landa­mærum taka gildi 16. ágúst.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Á fundinum á­kvað ríkis­stjórnin, í sam­ræmi við til­lögur sótt­varna­læknis, að hefja skimun bólu­settra ferða­manna sem hafa tengsl við Ís­lands og koma til landsins. Þessar reglur taka gildi 16. ágúst en ekki hefur verið á­kveðið hve lengi þær muni standa. Þá þurfa allir sem falla innan þessa hóps að fara í skimun innan tveggja sólar­hringa eftir komuna. Katrín sagði að með nýrri reglu­gerð um landa­mærin væri verið að bregðast við breyttu eðli far­aldursins og nýjum af­brigðum Co­vid-19.

Svan­dís sagði að þessi hópur sem þyrfti að fara í skimun yrði vel af­markaður og vinna við það hefjist á næstu dögum. Ekki sé gert ráð fyrir að fólk sé í sótt­kví á meðan beðið er skimunar.

Fjöl­miðla­fólk þurfti að bíða lengi eftir ráð­herrum.
Fréttablaðið/Aðalheiður Ámundadóttir

„Það liggur fyrir að þessi far­aldur er öðru­vísi en fyrir bylgjur. Það eru mörg smit en minni veikindi. Bólu­setningin hefur skilað miklum árangri,“ einkum í að hindra al­var­leg veikindi sagði Katrín.

For­sætis­ráð­herra sagði að um 27 þúsund manns sem boðaðir voru í bólu­setningu hafi ekki þegið boðið og hún sagði að verið sé að reyna að ná betur til þessa hóps. Hún sagði þessi mál nú til skoðunar, það væru ein­hverjir sem ekki hefðu þegið bólu­setningu þrátt fyrir að engar læknis­fræði­legar á­stæður hindruðu það. Aukin um­ræða um bólu­setningar væri ein leið til að ná til fólks og hvatti hún alla sem það geta að láta bólu­setja sig.

Þá stendur til að flýta endur­bólu­setningu þeirra sem fengu bólu­efni Jans­sen. Sömu­leiðis á­kvað ríkis­stjórnin að hefja örvunar­bólu­setningar hjá öldruðum og við­kvæmum hópum.

Lagði fram minnis­blað um styrkingu Land­spítalans

Svan­dís greindi frá því að hún hefði lagt fram minnis­blað með til­lögum til að styðja við Land­spítalann í far­aldrinum en á­standið þar hefur verið erfitt lengi. Til­lögurnar snúi bæði að far­aldrinum sjálfum og Land­spítalanum öllum, meðal annars með því að flýta út­skrift sjúk­linga af spítalanum. Mikil­vægast nú sé að styrkja stoðir heil­brigðis­kerfisins, Land­spítalann og þétta varnir við landa­mærin.

Svan­dís greindi frá því að hún hefði lagt fram minnis­blað með til­lögum til að styðja við Land­spítalann.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Fram kom í máli Katrínar að nú sé verið að skoða hvernig hægt styrkja heil­brigðis­kerfið. Rætt verði við for­svars­menn Land­spítalans og sótt­varna­yfir­völd um hvernig því verði hátta og það muni ráða næstu skrefum. Til­gangurinn sé að lág­marka veikindi eftir fremsta megni.

Hún sagði að ræddar hefðu verið sam­komu­tak­markanir innan­lands, með al­mennum hætti. Það þurfi að skoða sér­stak­lega stöðu og þol heil­brigðis­kerfisins. Slíkt yrði lagt til grund­vallar að breytingum á sótt­varna­að­gerðum innan­lands. Þó sé ekki búið að taka á­kvörðun um hvað taki við þegar að­gerðir, sem nú eru í gildi, renna út 13. ágúst. Þær tóku gildi 25. júlí.

Svan­dís sagði enn fremur að róið væri að því öllum árum að tryggja að dag­legt líf innan­lands sé eins eðli­legt og hægt er. Að­gerðir á landa­mærum séu til­raun til að koma í veg fyrir að ný af­brigði berist inn í landið. Það sé mat sótt­varna­læknis að skýr tengsl séu milli þess að fólk sem tengist landinu komi hingað smitað og smitum innan­lands fjölgi síðan.