Rúmlega hundrað manns í Nyköping í Svíþjóð voru bólusett í gær gegn Covid-19 með útrunnu bóluefni frá Pfizer. Yfirmaður bólusetninga í Sörmland-sýslu segir að verklagsreglur hafi verið brotnar.
Bóluefnin voru komin yfir þann dag sem Pfizer sagði að tækt væri að bólusetja með þeim en þau voru geymd við þær aðstæður sem fyrirtækið mælir með. Búið er að hafa samband við þau sem voru bólusett en 88 þeirra voru á aldrinum tólf til fimmtán ára.
„Það er ekki vitað til þess að nokkur hætta fylgi því þegar bóluefni eru geymd fram yfir þann tíma sem mælt er með notkun þeirra og samkvæmt bráðabirgðaúttekt veita þau vernd gegn Covid-19. Við höfum hins vegar haft samband við Pfizer til að fá úr því skorið hvort lengri geymslutími hafi einhver áhrif á bóluefnið, sem hefði í för með sér að bólusetja þurfi aftur,“ segir Magnus Johansson yfirmaður bólusetninga í Sörmland í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT.
Búið er að gefa fjórtán milljónir skammta bóluefnis í Svíþjóð og eru 6,72 milljónir Svía nú fullbólusettir. Það jafngildir um 68 prósentum íbúa yfir 18 ára aldri.