Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, segir ekki enn ekki vera faglegar forsendur til að mismuna óbólusettum. Hann segir líklegt að meiri vandræði skapist í kringum bólusetningu yrði skylda sett á.

Þórólfur ræddi um stöðuna í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Við færum að lenda í þessari umræðu um skylduna og þá yrðu jafnvel fleiri sem myndu ekki vilja mæta og þetta yrði bara allsherjar stríð,“ sagði Þórólfur jafnframt. Hann sagði að enn ætti eftir að koma í ljós hvernig þriðja sprautan virki. Ef hún geri kraftaverk að því leytinu að hún komi í veg fyrir smit þá væri hægt að fara ræða bólusetningarskyldu.

„Þá hafa menn faglegar forsendur til að fara ræða það,“ sagði Þórólfur.

Að sögn Þórólfs sé allt of snemmt að fara ræða þetta núna, enn sé verið að fylgjast með árangrinum af örvunarskammtinum.

Varðandi stöðu faraldursins sagði Þórólfur ýmis teikn á lofti um að búið sé að ná toppnum á þeirri smitbylgju sem nú stendur yfir. Þá sé einnig jákvætt að hlutfall þeirra sem greinist nú í sóttkví sé að hækka.

Þórólfur sagðist einnig halda að búið væri að ná toppnum á þessari bylgju. „Það eru sumir sem telja að við eigum eftir að ná toppnum en mér sýnist að við séum búin að ná toppnum.“