Óskar Reyk­dals­son, for­stjóri heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins, segir að fólk megi búast við því að bíða í röð ef það mæti ekki á þeim tíma sem það er boðað í.

Röðin í bólu­setningu nær nú niður að Glæsi­bæ en heilsu­gæslan boðaði fleiri en höfðu upp­runa­lega fengið boð vegna dræmrar mætingar í morgun. Frá því að fólk mætir í röðina eru dæmi um að það hafi þurft að bíða í nærri tvo klukkutíma.

„Það er allt brjálað þarna núna. Það var mjög dræmt fyrst í morgun þegar dagurinn byrjaði og innan við helmingur sem mætti þannig við kölluðum inn fleiri. Það var vesen því okkur vantaði fólk en svo fór fólk að koma,“ segir Óskar.

Hann segir að Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir sem hefur séð um bólu­setningarnar hafi rokið niður ­eftir til að greiða úr vandanum.

Ekki fylgst með því hvenær fólk mætir

Hann segir að það sé leiðin­legt hversu ó­á­reiðan­legt þetta er.

„Einn daginn koma 35 til 40 prósent og svo hinn daginn koma miklu fleiri. Við erum búin að reyna að skipu­leggja þetta eins vel og mögu­legt var,“ segir Óskar og að þau reyni sitt allra besta í að klára þetta í dag.

Skammtarnir sem komu til landsins af Jans­sen voru 28 þúsund og að sögn Óskars átti að reyna að klára helminginn í dag.

„Við náum að bólu­setja alla sem eru þarna,“ segir hann.

Hann segir að það sé ekki endi­lega fylgst með því hvort að fólk sé að mæta á boðuðum tíma en að ef að allir mæti á sama tíma þá verði lengri röð.

„Ef allir ætla á þeim tíma sem þau eru boðuð þá verða ekki svona raðir,“ segir hann en bætir við að þegar fleiri eru boðaðir en voru upp­runa­lega þá geti þau öll mætt á sama tíma hafi líka á­hrif á bið­tímann og röðina.

„Af því að fólk vill ekki missa af þessu,“ segir hann.

Heldurðu að það hafi verið dræm mæting í morgun því þið eruð að bólu­setja með Jans­sen?

„Við höfðum á­hyggjur af því en höfum ekki lengur á­hyggjur af því,“ segir Óskar léttur í bragði.

En það fá allir bólu­setningu sem eru í röðinni, en þurfa að bíða eftir henni?

„Ég vona það. Það er stefnt að því og það yrði bara ef við hrein­lega komumst ekki fyrir það en það verður allt gert til að komast yfir þetta, því það er til efni,“ segir Óskar.

Þó­nokkrir hafa tjáð sig um röðina á sam­fé­lags­miðlum og eru ekki öll jafn sátt.