Sýr­land fékk í gær af­henta fyrstu skammtana af CO­VID-19 bólu­efni í gegnum CO­VAX, sam­starf 192 landa sem tryggja á jafna dreifingu bólu­efn­is meðal efna­minni ríkja heims­. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu á vegum UNICEF sem á­samt Barna­hjálp Sam­einuðu þjóðanna leiðir inn­kaup og af­hendingu á bólu­efnum fyrir CO­VAX sam­starfið.

Í þessari fyrstu út­hlutun fékk Sýr­land 256.800 skammta af bólu­efni AstraZene­ca og eru fleiri skammtar væntan­legir á næstu vikum. Skammtarnir verða gefnir heil­brigðis­starfs­fólki í fram­línu, þar á meðal í norður­hluta landsins þar sem átök geisa enn og fjöldi fólks er á ver­gangi.

„Bólu­efnin eru ljós í myrkrinu fyrir íbúa Sýr­lands. Þau munu gera heil­brigðis­starfs­fólki kleift að halda á­fram að veita lífs­nauð­syn­lega að­stoð í landi þar sem heil­brigðis­kerfið er að hruni komið eftir ára­tuga átök,“ segir Ted Chai­ban, svæðis­stjóri UNICEF í Mið­austur­löndum.

Eitt glas af bóluefni AstraZene­ca.
Mynd/Aðsend

Borgarastríðið flækir bólusetningar

Skráð CO­VID-19 til­felli í Sýr­landi eru nú 51.580 en Sam­einuðu þjóðirnar telja að raun­veru­leg tala smitaðra sé mun hærri. Tíu ár er síðan borgara­stríð braust út í Sýr­landi og vegna lang­varandi á­taka er búnaður og að­staða til skimana því mjög tak­markaður. Sam­kvæmt UNICEF er af­hending bólu­efnanna því mikil­vægur liður í að hefta út­breiðslu veirunnar í landinu en heil­brigðis­starfs­fólk landsins þarf þó mun meiri stuðning til þess að geta haldið á­fram að hjálpa þeim mikla fjölda fólks sem er í við­kvæmri stöðu.

Jafn­vel þó átök séu á undan­haldi í kjöl­far vopna­hlés sem efnt var til í mars 2020 þá hefur borgara­stríðið flækt af­hendingu bólu­efna til muna. Yfir­völd hafa neyðst til að flytja bólu­efni sem ætlað er fyrir yfir­ráða­svæði ríkis­stjórnarinnar í gegnum höfuð­borgina Damaskus en flytja hefur þurft aðrar sendingar í gegnum landa­mæri Tyrk­lands.

Þá hafa ýmis vest­ræn mann­réttinda­sam­tök sagt að þær fjár­hags­legu refsi­að­gerðir sem lagðar hafa verið á Sýr­land geri fyrir­hugaðar bólu­setningar á á­taka­svæðum mjög erfiðar.