Bólusetning gegn COVID-19 kórónaveirusjúkdómnum mun að öllum líkindum hefjast á fyrstu vikum næsta árs hér á landi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra flutti munnlega skýrslu um bólusetningar gegn COVID-19 á Alþingi í dag og sat fyrir svörum þingmanna. Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði ráðherrann um hvenær bólusetningar geti hafist og hversu lengi þær muni standa yfir.

„Ég geri ráð fyrir því að þetta geti hafist strax í byrjun ársins og á fyrstu vikum nýs árs en á hversu miklum hraða get ég ekki sagt fyrir um. Miðað við það hvernig þetta lítur allt saman út þá getum við gert ráð fyrir því að markmið um bólusetningar verði náð um það bil við lok fyrsta ársfjórðungs ársins 2021,“ svaraði ráðherrann.

Heilsugæslan mun sjá um framkvæmd bólusetningarinnar og er þegar hafin undirbúningsvinna um framkvæmd og útfærslu.

Heilbrigðisstarfsfólk og annað framlínufólk er fremst í röð til að fá bóluefni.

Skrifa undir samning við Pfizer 9. desember

Íslenska ríkið hefur þegar tryggt sér aðgang að bóluefni Oxford háskóla og lyfjafyrirtækisins AstraZeneca. Ísland er meðal þjóða sem styður við þær rannsóknir í gegnum COVAX verkefnið.

Heilbrigðisráðherra staðfesti á þingfundi í dag að samningaferlið við BioNTech og Pfizer væri langt komið og mun Ísland undirrita samninginn þann 9. desember næstkomandi.

Ekki er komin dagsetning fyrir undirritun við bandaríska lyfjafyrirtækið Moderna en ráðherra telur að það takist fyrir jól.

Ísland mun kaupa bóluefni frá þessum þremur lyfjaframleiðendum: AstraZeneca, Moderna og Pfizer og verður bólusetning gjaldfrjáls fyrir almenning.