Nýju afbrigðin af Kóvid eru mun hættulegri og meira smitandi hjá börnum en hin fyrri, segir Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum og yfirlæknir Barnaspítala Hringsins í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.

Þá séu bólusetningar barna bráðnauðsynlegar með nýjum afbrigðum kórónuveirunnar.

„Í upphafi faraldursins var ljós í myrkrinu að veiran bannsetta smitaði börn síður og þau urðu síður veik en fullorðnir, það var ákveðin huggun í þessu öllu,“ segir Ásgeir.

Með Delta afbrigðinu sem herjar á landann eru fimmfalt meiri líkur á að börn smitist, og ennþá meiri með ómíkrón afbrigðinu sem er að ryðja sér til rúms hér á landi.

„Það er ljóst að sá tími sem börn smituðust lítið og ekki mikið veik er farinn,“ segir Ásgeir.

Þá bendir hann á að börn sem smitast verða almennt ekki hættulega veik, en ef mörg börn smitast verða alltaf einhverjir sem þurfa á sjúkrahúsinnlögn að halda, jafnvel á gjörgæslu.

það er ekki stór hluti, en áhættan er þarna.

Foreldrar almennt hlynntir bólusetningum

Hávær en lítill hópur er á móti bólusetningum barna við kórónuveirunni, sem dæmi hafa verið háværar raddir og vangaveltur á Facebook hópnum Mæðratips.

„það er alltaf ákveðinn hópur sem er hikandi sem er skiljanlegt, en ég veit ekki hvort hópurinn hafi stækkað eða hvort það sé meiri hávaði og það kann að vera að fleiri séu óvissir.“

„Þá er það er svo sannarlega ekki þannig að þetta sé ný aðferð að búa til bóluefni, heldur nokkurra tugi ára. Við sem fylgjumst með í ónæmisfræði erum búnir að vera mjög spenntir að sjá það ryðja sér til rúms, aðferðin mjög áhugaverð og mun breyta ýmsu í bólusetningamarkarði og hugsanlega fyrir öðrum sjúkdómum líka, þetta eru töluvert miklar rannsóknir um 30 til 40 ár sem eru að skilast til okkur núna.“

Ef ég þarf að leita mér til læknis, lyfjum eða bólusetningum segi ég fyrir sjálfan mig að ég óttast ekki það sem er nýtt og búið að rannsaka og þróa, heldur það sem er gamalt,“ segir Ásgeir.