Stærri skemmti­staðir á Eng­landi munu frá lok septem­ber ekki hleypa neinum inn sem getur ekki sýnt fram á bólu­setningar­vott­orð, sam­kvæmt frétt Bloom­berg.

Öllum tak­­mörk­un­um vegna kór­ónu­veirunn­ar var af­létt á Eng­landi í dag. Frá og með mið­nætti voru við­burðir leyfðir, skemmti­­staðir opnaðir og höml­um á starf veit­inga­staða og öl­húsa af­létt.

Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Bret­lands, sagði að þó munu sumar „lífsins lysti­semdir“ vera háðar bólu­setningu.

„Við viljum að skemmti­staðir hagi sér skyn­sam­lega og noti NHS-co­vid snjall­síma­forritið,“ sagði John­son á fjar­fundi við blaða­menn en um er að ræða eins konar smitrakningar­for­rit frá heil­brigðis­yfir­völdum. „Við á­skiljum okkur rétt til þess að gera það að skyldu ef þörf verður á.“

Takmarkanir á Englandi hafa haldið skemmtanalífinu í skefjum síðustu mánuði.
Ljósmynd/EPA

Á­stæðan fyrir því að fram­vísun bólu­setningar­vott­orðs verður ekki skil­yrði strax er vegna þess að allir eldri en 18 ára Bret­landi hafa ekki fengið boð í seinni sprautuna. Búist er við því að allir eldri en 18 verði boðaðir fyrir lok septem­ber.

Á­ætlað er að skil­yrðið muni taka til allra stærri skemmti­staða innan­dyra og mun nei­kvætt co­vid-próf ekki lengur duga fyrir inn­göngu. Talið er að Breska þingið muni gera ein­hverjar til­lögur að breytingum á reglunum þar sem þær taka ekki til fólks sem getur ekki látið bólu­setja sig af heilsu­fars­á­stæðum.

Engar sambærilegar reglur fyrir inngöngu á skemmtistaði eru að finna á Íslandi en í lok maí hvatti Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra, alla til að nota smitrakningarappið á djamminu.