Gestir Bran kastala í Tran­syl­vaníu, sem þekktur er fyrir tengsl sín við söguna um Drakúla greifa, geta búist við því að missa ör­lítið blóð við heim­sóknina en þó ekki vegna vampíru­bita heldur vegna þess að kastalanum hefur nú verið breytt í bólu­setningar­mið­stöð. BBC greinir frá.

Sjúkra­liðar með vampíru­lím­miða á sloppum sínum bjóða nú hverjum þeim sem heim­sækir 14. aldar kastalann upp á sprautu með bólu­efni Pfizer. Verk­efnið er partur af á­taki á vegum ríkis­stjórnar Rúmeníu til að hvetja fólk til að fara í bólu­setningu.

Yfir milljón CO­VID-19 smit hafa greinst í Rúmeníu frá því að far­aldurinn hófst og nærri því 29.000 manns hafa látist úr sjúk­dómnum.

Ríkis­stjórn Rúmeníu hefur sett sér mark­mið um að bólu­setja 10 milljón manns fyrir septem­ber en rann­sóknir benda til þess að nærri því helmingur Rúmena séu and­vígir bólu­setningu, eitt það mesta sem mælist í Evrópu.

Yfir­völd vonast til þess að þessi ný­stár­lega að­ferð við bólu­setningar muni skila árangri. Allar helgar í maí­mánuði getur fólk mætt í Bran kastala og fengið þar bólu­setningu án þess að þurfa að panta tíma og fengið að skoða kastalann og um­fangs­mikið safn pyntingar­tækja frá mið­öldum sem þar eru til sýnis endur­gjalds­laust.

„Hug­myndin var að sýna hvernig Evrópu­búar voru stungnir fyrir 500-600 árum síðan,“ segir kynningar­stjóri kastalans, Alexandru Priscu, í sam­tali við frétta­stofu Reu­ters.

Bran kastali er gjarnan nefndur sem inn­blásturinn að sögunni um Drakúla þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að Bram Stoker, höfundur bókarinnar, hafi vitað af honum. Þó er talið að Vlad stjak­setjari, sem var inn­blásturinn að per­sónu Drakúla greifa, hafi dvalið í kastalanum ein­hvern tímann á 15. öld.

Bran kastali í Transylvaníu.
Fréttablaðið/Getty