Frá og með deginum í dag er 60 ára og eldri boðinn fjórði skammtur af bóluefni gegn Covid-19 í Laugardalshöll.
Bólusett er alla virka daga á milli klukkan 11 og 15 til 7. október.
Samhliða örvunarskammtinum verður einnig boðið upp á bólusetningu gegn inflúensu fyrir sama hóp. Þau sem þiggja inflúensubólusetninguna í Laugardalshöll þurfa ekki að greiða fyrir hana.
Notuð verður ný útgáfa bóluefnis sem veitir vörn gegn Omíkron-afbrigði Covid.
„Þetta sérstaka bóluefni er ekki notað í grunnbólusetningar, einungis sem örvunarskammtur,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiður segist búast við miklum fjölda í Höllina næstu tvær vikurnar, á höfuðborgarsvæðinu séu um 30 þúsund manns sextíu ára og eldri sem ekki hafi fengið örvunarskammt. „Svo eru enn fleiri sem eiga eftir að fá inflúensubólusetningu,“ segir hún.