Niðurstöður nýrrar rannsóknar gefa til kynna að fólk sem hafi verið bólusett fyrir inflúensu sé mögulega ólíklegra til að fá COVID-19 en aðrir.

Bendir rannsóknin til að slík bólusetning geti hugsanlega framkallað breiðvirkt ónæmissvar sem nýtist einnig í baráttu líkamans við nýju kórónaveiruna.

Greint er frá þessu á vef Scientific American en þess ber að geta að um er að ræða óbirtar vísindaniðurstöður sem hafa ekki enn hlotið jafningjarýni.

Niðurstöðurnar eru sagðar vera í samræmi við aðrar nýlegar rannsóknir sem birtar hafi verið í fræðiritum en höfundar benda á að um sé að ræða frumniðurstöður sem staðfesta þurfi með ítarlegri greiningu.

Bóluefni að klárast

Heilbrigðisyfirvöld víða um heim hafa undanfarið hvatt fólk til að láta bólusetja sig gegn inflúensu til að forðast slæman inflúensufaraldur ofan á COVID-19.

RÚV greindi frá því fyrir helgi að aldrei hafi fleiri hlotið bólusetningu gegn árlegri inflúensu hér á landi og að bóluefnið sé nú uppurið.

Fylgdust með starfsmönnum spítala

Í áðurnefndri rannsókn skoðuðu vísindamenn gagnagrunn spítala til að skoða hvort bólusetning starfsmanna á árunum 2019 og 2020 virtist hafa áhrif á tíðni COVID-19.

Bentu gögnin til þess að bólusettir starfsmenn væru 39% ólíklegri til að greinast með COVID-19. Á meðan 2,23% þeirra starfsmanna sem voru ekki bólusettir greindust með sjúkdóminn átti hið sama við um 1,33% af hinum hópnum.

Áhugaverðar niðurstöður en ekki staðfesting

Ellen Foxman, ónæmislífræðingur við Yale School of Medicine, segir í samtali við Scientific American að um sé að ræða áhugaverða rannsókn en að hún færi ekki sönnur á að bóluefni gegn inflúensu verji fólk gegn COVID-19.

Aðrar skýringar geti verið á því hvers vegna hóparnir tveir voru mislíklegir til að greinast, svo sem að fólk í þeim bólusetta væri líklegra til að fylgja sóttvarnarreglum.

Þó rannsóknir á borð við þessa geti sýnt fram á fylgni milli athafna og útkomu geti þær ekki sýnt fram á orsakatengsl.