Á næstu vikum skýrist hvort mælt verði með bólu­setningum barna á aldrinum 12 til 15 ára hér á landi. Það sagði Kamilla Sig­ríður Jósefs­dóttir, stað­gengill sótt­varna­læknis, í við­tali í Morgunút­varpinu á Rás 2 í morgun.

„Þetta er skóla­aldur og for­eldrar þurfa að vera sam­þykkir. Þó að bólu­setningar muni mögu­lega fara fram í skólunum þá þarf samt að liggja fyrri sam­þykki for­eldra. Við erum að fara að ræða það með heilsu­gæslunni hvernig er best að haga fram­kvæmdinni og upp­lýsinga­gjöf og öðru,“ sagði hún í við­talinu.

Hún sagðist ekki vita hvort að tak­markanir yrði settar á skóla­starf en að þeirra mark­mið væri að efla varnir kennara á skóla­stigum, sem margir fengu Jans­sen bólu­efni. Einnig er í undir­búningi að bjóða við­kvæmum hópum og eldra fólki þriðja skammtinn af bólu­efni.

Kamilla sagðist vonast til þess að það væri hægt að birta á­ætlun vegna þess á næstu tveimur vikum.

Útbreiðsla ljós í lok vikunnar

Spurð hvort von væri á harðari tak­mörkunum á ný ef að smitum fjölgar nú aftur eftir verslunar­manna­helgina sagði Kamilla að það væri mikil­vægt að gera nýtt á­hættu­mat reglu­lega og það sé gert dag­lega.

„Það er alltaf svo­lítil bið­staða eftir helgar. Nú var lengri helgi,“ sagði Kamilla og sagði að þótt það hefði dregið úr smitum um helgina þá óttist yfir­völd að þeim muni fjölga í dag og á morgun.

Hún sagði að við myndum vita við lok vikunnar hvort að út­breiðslan verði meiri eftir hittinga og smá­há­tíðir verslunar­manna­helgarinnar en veikindi Delta-af­brigðis kórónu­veirunnar gerir vart við sig fyrr en önnur af­brigði.