Vendipunktur varð í þróun kórónaveirufaraldursins sem hefur geisað um heiminn og litað samfélög hans frá því í upphafi þessa árs, þegar hin 90 ára gamla Margaret Keenan varð fyrsti Bretinn til þess að fá bóluefni sem Pfizer framleiddi gegn veirunni.

Keenan, sem sagði bólusetninguna vera frábæra fyrir fram afmælisgjöf, fékk fyrsta skammtinn af þeim 800.000 skömmtum af bóluefni sem sprautað verður í fólk í Bretlandi næstu vikurnar. Stefnt er að því að allt að fjórar milljónir manna verði bólusettar í Bretlandi áður en árið rennur sitt skeið.

Talið er bandaríska lyfjaeftirlitið muni heimila bólusetningu þar í landi fyrir forgangshópa á fundi sínum sem haldinn verður á morgun. Þá muni Evrópska lyfjastofnunin taka ákvörðun um hvenær bólusetning hefjist í löndum Evrópusambandsins á fundi sínum 29. desember næstkomandi. Ísland hefur tryggt sér aðgang að nægilegu magni til þess að bólusetja alla þjóðina í gegnum samninga sem Evrópusambandið hefur gert.

Pfizer var fyrsta fyrirtækið til að fá leyfi fyrir notkun á bóluefni sínu. Moderna, sem átti raunar óprófaða útgáfu af bóluefni fyrir veiru samsvarandi kórónaveirunni í janúar á þessu ári mun svo innan skamms hefja dreifingu á sínu bóluefni.

Nóg bóluefni til fyrir allan heiminn

Um er að ræða umfangsmestu bólusetningu í heiminum í sögunni. Bloomberg segir að eins og staðan sé núna hafi 7,85 milljarðar skammta af bóluefninu verið pantaðir af þjóðum heims. Það dugir fyrir fólksfjölda heimsins en í sumum tilfellum þarf að gefa bóluefnið í tveimur jöfnum skömmtum. Kínverjar og Rússar hafa þróað eigin bóluefni og heimiluðu notkun þeirra í júlí fyrr á þessu ári, áður en þau voru prófuð að fullu.

Pfizer hefur í hyggju að framleiða 50 milljónir skammta af bóluefni fyrir lok árs og síðan 1,3 milljarða fyrir árslok 2021. Moderna býst hins vegar við því að framleiða 20 milljónir skammta fyrir Bandaríkin í desember og 100 milljónir skammta fyrir heiminn allan. AstraZeneca er hins vegar stórtækasti framleiðandinn þar sem lyfjafyrirtækið ætlar að framleiða 3 milljarða skammta.

Töluverða umgjörð þarf við flutning á bóluefninu á milli staða en margar þjóðir, þar á meðal Bandaríkin, munu fá Covax, sem er fyrirtæki sem starfar á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til þess að sjá um flutninginn til sín. Evrópusambandið mun hafa milligöngu um flutninginn til landa sambandsins. Þá mun mexíkóski milljarðamæringurinn Carlos Slim sjá að mestu leyti um flutninginn til landanna í Suður-Ameríku fyrir utan Brasilíu.

Þrátt fyrir að margir séu orðnir óþreyjufullir eftir komu bóluefnisins á markað og skilji ekki hvers vegna það tekur svo langan tíma að þróa lyf sem nú þegar var til óprófað á lager hjá Moderna í það minnsta, þá er bóluefnið að koma á markað á methraða. Alla jafna tekur það nokkur ár að setja saman og þróa slíkt bóluefni.