Matvælastofnun hvetur kanínueigendur til að bólusetja dýr sín árlega til að vernda þær gegn bráðsmitandi veirusýkingu. Veiran, sem heitir RHDV2 (Rabbit Hemorhagic Disease Virus 2) olli fjöldadauða hjá hálfvilltum kanínum í Elliðaárdal í fyrra.

Ekki hafa borist neinar nýjar tilkynningar til MAST en að sögn sérfræðings hjá stofnuninni lifir veiran að öllum líkindum enn úti í náttúrunni.

„Það er búist við því þegar svona smit hefur komið í villtum dýrum, eða alla vega dýrum úti í náttúrunni, að veiran sé þar til frambúðar. Hún þolir það að frjósa og þiðna til skiptis, hún þolir það að vera étin hvort sem er af fuglum eða hundum og hún er enn smitandi þegar hún kemur út í hægðum. Hún lifir mjög lengi í lífrænum úrgangi,“ segir Þóra J. Jónasdóttir, sérgreinadýralæknir hjá MAST.

Hún segir það vera viðbúið að ef ung dýr sem eru óbólusett komist í tæri við veiruna gæti ný bylgja smits brotist út með reglulegu millibili og valdið fjöldadauða eins og gerðist í mars 2020.

Búið er að heimila innflutning á bóluefni gegn veirunni og bjóða nú flestir dýralæknar upp á bólusetningu á stofum sínum. Þóra hvetur alla kanínueigendur til að láta bólusetja dýr sín.

„Að öðrum kosti er erfitt að verjast því að smita ekki dýrin af því þetta er svo harðgerð veira sem lifir lengi í náttúrunni,“ segir hún.

„Svo þarf náttúrlega ekki að vera að það komi ný bylgja, dýr sem lifa af geta myndað mótefni en það er mjög há dánartíðni hjá kanínum sem veikjast.“