Meðalfjöldi daglegra bólusetninga í Bandaríkjunum fór í fyrsta skipti yfir tvær milljónir á miðvikudag. Fyrir mánuði var meðalfjöldinn um 1,3 milljónir. Þetta er haft eftir upplýsingum frá CDC, bandarísku sóttvarnastofnuninni.

Um 54 milljónir Bandaríkjamanna hafa nú fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn COVID-19. Þá eru ekki teknar með tölur fyrir eins skammts bóluefni Johnson & Johnson, sem var heimilað til neyðarnotkunar fyrir um viku.

Joe Biden Bandaríkjaforseti setti landinu það markmið skömmu eftir að hann tók við embætti að daglegar bólusetningar yrðu 1,5 milljónir. Þá hefur hann einnig lofað að ná 100 milljónum bólusetninga fyrir 30. apríl, sem verður hundraðasti dagur hans í embætti.

Biden hefur undanfarna daga gagnrýnt Greg Abbott, ríkisstjóra Texas, og aðra sem hafa slakað á COVID-19 takmörkunum og sagt að það væru „stór mistök“ fyrir fólk að hætta að nota grímur.

„Það síðasta sem við þurfum er Neanderdals-hugsunarháttur um að fyrst allt sé í lagi í augnablikinu sé hægt að taka grímuna af sér og gleyma henni,“ sagði Biden á blaðamannafundi í Hvíta húsinu. „Þvoið hendurnar með heitu vatni. Gerið það oft, notið grímu og virðið fjarlægðarviðmið. Ég veit að þið vitið það öll. Ég vildi óska þess að nokkrir af kjörnum embættismönnum okkar vissu það líka.“

Dr. Rochelle Walensky, yfirmaður CDC, lýsti fyrr í vikunni yfir áhyggjum vegna þróunar sjúkdómsins og sagðist óttast að ný og meira smitandi afbrigði veirunnar gætu valdið fjórðu bylgjunni þar í landi.

Í dag hafa 28,9 milljónir greinst með COVID-19 í Bandaríkjunum og 520 þúsund látið lífið af völdum veirunnar.