Bandarísk yfirvöld samþykktu í dag að veita heimild við því að bólusetja ungabörn við Covid-19 og hefjast bólusetningar í næstu viku.

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna féllst með því á tillögu sem lögð var fyrir stofnunina á dögunum að bólusetja börn með bóluefnunum frá Moderna og Pfizer.

Áður var búið að samþykkja að bólusetja börn niður í fimm ára aldur en nú færist aldurbilið niður í sex mánaða gömul börn.

Samkvæmt því verður átján milljónum barna nú boðið að þiggja bóluefni við Covid-19. Um leið var samþykkt að nota bóluefni Moderna hjá grunnskólabörnum og táningum.

Smitsjúkdómastofnunin á enn eftir að ákveða hvort að mælt verði með tveimur eða þremur skömmtum af bóluefninu en von er á nánari útskýringum á morgun.