Rauða regnhlífin, baráttusamtök kynlífsverkafólks, Embætti landlæknis og smitsjúkdómadeild Landspítalans standa nú að bólusetningar­átaki meðal kynlífsverkafólks gegn apabólu. Rauða regnhlífin segir hópinn stærri en fólk grunar og að mikilvægt sé að ná til allra.

Logn er í Rauðu regnhlífinni og segir að átakið hafi komið til eftir að samtökin sendu póst á Embætti landlæknis um bólusetninguna.
„Við fengum strax jákvæð viðbrögð og þau voru sammála okkur um mikilvægi þess að ná kynlífsverkafólki í þessa bólusetningu af því að kynlífsverkafólk er ekki eins verndað og almenningur. Oft er heilsa okkar ekki tekin eins alvarlega. Þetta er mjög jaðarsettur hópur og okkur fannst mjög mikilvægt að við fáum heilbrigðisþjónustu sem við þurfum og eigum rétt á,“ segir Logn.
Bólusetning gegn apabólu hófst í júlí og komu til að byrja með 40 skammtar af bóluefni til landsins.

„Það hafa alls ekki verið mörg smit af apabólu á Íslandi. Við erum heppin með það og það er ekki mikil áhætta. Oft er kynlífsverkafólk að vinna í mjög nánu umhverfi með öðru fólki og er þá mun líklegra til að smitast af apabólunni. Það getur þá í kjölfarið haft mikil áhrif á getu þess til að vinna og framfleyta sér,“ segir Logn.

Aðstoða fólk að komast í bólusetningu

Hán segir að smitsjúkdómadeild Landspítalans, A3, hafi tekið við verkefninu og að þar geti fólk fengið bólusetninguna en að einnig geti fólk haft samband við félagið í gegnum raudaregnhlifin@gmail.‌com eða í gegnum Insta­gram-reikning samtakanna til að fá upplýsingar um bólusetninguna.

„Við getum séð um að koma þeim í bólusetninguna án þess að það komi fram sérstaklega að þau séu kynlífsverkafólk. Við viljum vinna með fólki til að passa upp á öryggi þess. Það eru ekki allir eins opnir um þetta og við sem erum í þessu málsvarastarfi. Númer eitt, tvö og þrjú er bara að koma heilbrigðisþjónustu til kynlífsverkafólks.“

Fjölbreyttur hópur

Kynlífsverkafólk er fjölbreyttur hópur en Logn segir að hópurinn sé líklega stærri en almenningur getur ímyndað sér. Meðlimir samtakanna séu til dæmis þau sem eru í kynlífsvinnu, Íslendingar sem strippa erlendis, heimilislaust fólk sem skiptir á kynlífi fyrir húsnæði og svo fólk sem skiptir á vímuefnum og kynlífi.

„Við höfum engar tölur um það hversu stór hópurinn er, en sama hver ástæðan er fyrir því að fólk er í þessari vinnu þá þurfa allir á heilbrigðisþjónustu að halda. Það er svo mikið stigma í kringum þetta og að ræða þetta og þess vegna viljum við að þessar upplýsingar dreifist sem víðast. Við erum miklu fleiri en fólk grunar. Það eru sumir sem hafa sinnt kynlífsvinnu en kannski skilgreina sig ekki sem kynlífsverkafólk eins og þau sem skipta á kynlífi fyrir vímuefni eða heimili eða annað. Við viljum passa að allir, líka þessi hópur, hafi gott aðgengi að heilbrigðiskerfinu, og þessu átaki.“

Logn segir enn mikla fordóma innan heilbrigðiskerfisins sem oft komi upp þegar fólk greinir frá því að hafa verið í svona vinnu eða þegar heilbrigðisstarfsfólk kannski veit af því í þessari starfsgrein í gegnum til dæmis OnlyFans. Því veigri margir sér við því að fara á heilsugæsluna eða leita sér aðstoðar.

„Það er svo lítill skilningur og hræðsla og við viljum koma í veg fyrir það því allir eiga rétt á aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það er svo mikilvægt að kynlífsverkafólk sé með þegar kemur að því að hanna heilbrigðisþjónustu fyrir okkur,“ segir Logn og að það hafi skort á samráð vegna hræðslu og fordóma.