Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra hefur nú stað­fest reglu­gerð um for­gangs­röðun við bólu­setningu vegna CO­VID-19. Alls eru skil­greindir tíu for­gangs­hópar í reglu­gerðinni en í mestum for­gangi eru til­tölu­lega fá­mennir hópar. Á­ætlað er að í fyrstu fimm for­gangs­hópunum séu rúm­lega 20 þúsund ein­staklingar.

Eftir þá hópa verður um­tals­verð fjölgun þar sem í sjötta hópnum eru ein­staklingar sem eru 60 ára og eldri. Þar á eftir koma ein­staklingar með lang­vinna sjúk­dóma, starfs­fólk skóla og fé­lags- og vel­ferðar­þjónustu og ein­staklingar í við­kvæmri stöðu vegna fé­lags­legra- og efna­hags­legra að­stæðna.

Að lokum koma síðan allir aðrir sem óska eftir bólu­setningu en ekki er gert ráð fyrir að börn fædd 2006 og síðar verði boðin bólu­setning nema að þau hafi undir­liggjandi lang­vinna sjúk­dóma og séu í sér­stökum á­hættu­hópi. Bólusetningin verður gjaldfrjáls.

Heimilt að víkja frá forgangsröðuninni ef nauðsyn ber til

Að því er kemur fram í til­kynningu um málið er til­gangur reglu­gerðarinnar að á­kveða for­gangs­röðunina á grund­velli mál­efna­legra sjónar­miða og með eins miklum fyrir­sjáan­leika og hægt er. Horft var til leið­beininga Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar og sjónar­miða sem hafa komið fram í sam­bæri­legri vinnu hjá ná­granna­þjóðum.

Þá kemur fram að lík­lega verði fleiri en ein tegund bólu­efna notuð hér á landi og að gert sé ráð fyrir að bólu­efnin muni henta ó­líkum hópum með mis­munandi hætti en slíkt gæti haft á­hrif á for­gangs­röðunina. Sótt­varna­læknir kemur til með að bera á­byrgð á skipu­lagningu og sam­ræmingu bólu­setningar.

Heimilt verður að víkja frá for­gangs­röðun reglu­gerðarinnar ef nauð­syn ber til en lögð verður á­hersla á að bólu­setja fram­línu­fólk fyrst auk þess sem ein­staklingar á hjúkrunar- og dvalar­heimilum og öldrunar­deildum sjúkra­húsa verður í miklum for­gangi.

Hægt er að nálgast reglugerðina í heild sinni hér.