Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur nú staðfest reglugerð um forgangsröðun við bólusetningu vegna COVID-19. Alls eru skilgreindir tíu forgangshópar í reglugerðinni en í mestum forgangi eru tiltölulega fámennir hópar. Áætlað er að í fyrstu fimm forgangshópunum séu rúmlega 20 þúsund einstaklingar.
Eftir þá hópa verður umtalsverð fjölgun þar sem í sjötta hópnum eru einstaklingar sem eru 60 ára og eldri. Þar á eftir koma einstaklingar með langvinna sjúkdóma, starfsfólk skóla og félags- og velferðarþjónustu og einstaklingar í viðkvæmri stöðu vegna félagslegra- og efnahagslegra aðstæðna.
Að lokum koma síðan allir aðrir sem óska eftir bólusetningu en ekki er gert ráð fyrir að börn fædd 2006 og síðar verði boðin bólusetning nema að þau hafi undirliggjandi langvinna sjúkdóma og séu í sérstökum áhættuhópi. Bólusetningin verður gjaldfrjáls.
Heimilt að víkja frá forgangsröðuninni ef nauðsyn ber til
Að því er kemur fram í tilkynningu um málið er tilgangur reglugerðarinnar að ákveða forgangsröðunina á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og með eins miklum fyrirsjáanleika og hægt er. Horft var til leiðbeininga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og sjónarmiða sem hafa komið fram í sambærilegri vinnu hjá nágrannaþjóðum.
Þá kemur fram að líklega verði fleiri en ein tegund bóluefna notuð hér á landi og að gert sé ráð fyrir að bóluefnin muni henta ólíkum hópum með mismunandi hætti en slíkt gæti haft áhrif á forgangsröðunina. Sóttvarnalæknir kemur til með að bera ábyrgð á skipulagningu og samræmingu bólusetningar.
Heimilt verður að víkja frá forgangsröðun reglugerðarinnar ef nauðsyn ber til en lögð verður áhersla á að bólusetja framlínufólk fyrst auk þess sem einstaklingar á hjúkrunar- og dvalarheimilum og öldrunardeildum sjúkrahúsa verður í miklum forgangi.