Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir og Már Kristjánsson, yfirmaður smitsjúkdómadeildar Landspítalans, segja góða þátttöku í bólusetningu hér á landi forsendu þess að Íslendingar komist út úr heimsfaraldri COVID-19. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna.
Þar var Þórólfur spurður að því hvernig yfirvöld hyggðust kynna bóluefni þegar það kæmi hingað til lands. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði frá því í síðustu viku að hann hyggðist ekki þyggja bólusetningu.
Þórólfur segir að undirbúningur á kynningu á bóluefni og hvernig henni verði háttað standi nú yfir. Hann bendir á að 95 prósent Íslendinga séu jákvæðir í garð bóluefnis samkvæmt skoðanakönnunum.
„Það er samt sem áður áhyggjuefni ef það kemur upp að menn fari að líta á þetta bóluefni sem stórhættulegt. Það skiptir máli að bera saman afleiðingar þessa sjúkdóms við afleiðingar bóluefnisins. Við höfum upplýsingar um afleiðingar fyrir tugþúsundir manna af veirunni,“ segir Þórólfur.
„Ég held að menn muni sjá mjög fljótt að áhættan við að fá bólusetningu er sennilega margfalt margfalt minni heldur en af COVID-19 sýkingunni. Þetta eigum við eftir að draga fram og skýra,“ segir hann. Hann segir það koma sér á óvart hve hátt hlutfall Svía séu tortryggnir í garð bóluefnis.
Veiran hafi í för með sér langtímaafleiðingar
Már segir að sé horft á dánartíðni sýkingarinnar á heimsvísu, þar sem tekið sé mið af dánartíðni í einstaka aldurshópum, sé ljóst að um sé að ræða lífshættulega veiru.
„Í öðru lagi er ýmislegt sem bendir til þess að fólk hafi langtímaafleiðingar. Við höfum séð það á miðlunum en getum sagt að það eru vísbendingar í rannsóknum um að þetta hafi langtímaafleiðingar. Mjög brýnt að ef ekki koma fram almenn vandkvæði að hér verði bólusetningar öllum til hagsbóta.“
Þórólfur segir bráðnauðsynlegt að ná góðri þátttöku í bólusetningu hér á landi til að koma lífinu í eðlilegan farveg. „Þetta verður algjörlega lykillinn í að koma okkur úr þessum heimsfaraldri.“