Fyrstu skammtar bóluefnis Pfizer og BioNTech eru komnir til landsins. Fraktflugvél lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan 09:16 í dag með tíu þúsund skammta bóluefnisins.

Efnið verður svo afhent við vöruskemmu fyrirtækisins Distica, sem mun sjá um dreifingu bóluefnisins innanlands, klukkan hálf ellefu í dag. Viðstödd afhendinguna verða Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri, Alma Möller, landlæknir, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.

Skammtarnir duga til að bólusetja fimm þúsund manns og hefjast bólusetningar á framlínustarfsfólki í heilbrigðisþjónustunni og íbúum hjúkrunarheimila á morgun.