„Eina sem kom upp á í dag [í gær] að það kláraðist hjá okkur bóluefnið fyrr en áætlað var,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, um bólusetningar þeirra sem eru yfir áttatíu ára síðustu tvo daga.
Árgangur 1939 og eldri hafði verið boðaður til bólusetningar á þriðjudag og miðvikudag.
„Þegar maður boðar heilu árgangana er aldrei hundrað prósent mæting,“ segir Ragnheiður. Mætingin á þriðjudag hafi verið um það bil 80 prósent af þeim sem voru boðaðir. „Bóluefnið má ekki fara til spillis og við urðum að klára það og sáum að ef sama hlutfall mætti aftur þá ættum svo mikið eftir. Og í staðinn fyrir að eiga alltof margar sprautur eftir ákváðum við að bjóða árangi 1940 og sendum boð á hann.“
Miðað við að sama hlutfall myndi mæta á í gær eins og í fyrradag þá átti allt að ganga upp að sögn Ragnheiðar. En síðan hafi miklu fleiri en reiknað var með skilað sér á staðinn. Um fimmtíu manns sem voru komin í bólsetningu hafi því þurft frá að hverfa. „Fólk sýndi þessu skilning,“ segir hún.
Tæplega fjögur þúsund skammtar voru gefnir í Laugardalshöll á þessum tveimur dögum, um 1.800 í fyrradag og um 2.200 í gær.
Aðspurð segir Ragnheiður hópinn sem mætti hafa verið ánægðan með að fá bóluefni, „Það var glatt á hjalla eins og er í þessum bólusetningum. Aðstandendur komu með og fólk var undirbúið og tilbúið og það gekk ótrúlega vel,“ segir hún.
Á þirðjudag í næstu er síðan ætlunin að halda bólusetningu eldra fólks áfram í Laugardalshöll. Þau úr árgangi 1940 sem ekki fengu bóluefni í gær mæta þá ásamt árgangi 1941. „En núna á föstudaginn erum við með heilbrigðisstarfsmenn. Við höldum galvösk áfram,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir.