„Eina sem kom upp á í dag [í gær] að það kláraðist hjá okkur bólu­efnið fyrr en á­ætlað var,“ segir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkrunar hjá Heilsu­gæslunni á höfuð­borgar­svæðinu, um bólu­setningar þeirra sem eru yfir átta­tíu ára síðustu tvo daga.

Ár­gangur 1939 og eldri hafði verið boðaður til bólu­setningar á þriðju­dag og mið­viku­dag.

„Þegar maður boðar heilu ár­gangana er aldrei hundrað prósent mæting,“ segir Ragn­heiður. Mætingin á þriðju­dag hafi verið um það bil 80 prósent af þeim sem voru boðaðir. „Bólu­efnið má ekki fara til spillis og við urðum að klára það og sáum að ef sama hlut­fall mætti aftur þá ættum svo mikið eftir. Og í staðinn fyrir að eiga allt­of margar sprautur eftir á­kváðum við að bjóða árangi 1940 og sendum boð á hann.“

Miðað við að sama hlut­fall myndi mæta á í gær eins og í fyrra­dag þá átti allt að ganga upp að sögn Ragn­heiðar. En síðan hafi miklu fleiri en reiknað var með skilað sér á staðinn. Um fimm­tíu manns sem voru komin í ból­setningu hafi því þurft frá að hverfa. „Fólk sýndi þessu skilning,“ segir hún.

Tæp­lega fjögur þúsund skammtar voru gefnir í Laugar­dals­höll á þessum tveimur dögum, um 1.800 í fyrra­dag og um 2.200 í gær.

Að­spurð segir Ragn­heiður hópinn sem mætti hafa verið á­nægðan með að fá bólu­efni, „Það var glatt á hjalla eins og er í þessum bólu­setningum. Að­stand­endur komu með og fólk var undir­búið og til­búið og það gekk ó­trú­lega vel,“ segir hún.

Á þirðju­dag í næstu er síðan ætlunin að halda bólu­setningu eldra fólks á­fram í Laugar­dals­höll. Þau úr ár­gangi 1940 sem ekki fengu bólu­efni í gær mæta þá á­samt ár­gangi 1941. „En núna á föstu­daginn erum við með heil­brigðis­starfs­menn. Við höldum gal­vösk á­fram,“ segir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir.