Tekið verður á móti fyrstu tíu þúsund skömmtunum af bóluefni Pfizer gegn Covid-19 í vöruskemmu fyrirtækisins Distica klukkan hálf ellefu í dag.

Viðstödd afhendinguna verða Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri, Alma Möller, landlæknir, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.

Þríeykið verður við afhendinguna í dag.
Sigtryggur Ari.

Bóluefnið kemur til landsins með flugi frá Amsterdam en gert er ráð fyrir að vélin lendi á milli klukkan 9 og 10 á Keflavíkurflugvelli. Það kemur í hlut dreifingaraðilans Distica að yfirfara sendinguna áður en Pfizer heimilar dreifingu hennar til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Bólusetningar gegn COVID-19 hófust í aðildarríkjum Evrópusambandsins í gær.

Stendur til að hefja bólusetningar hér á landi strax á morgun, þriðjudag. Tiltekinn hópur heilbrigðisstarfsfólks og íbúar hjúkrunarheimila verða meðal hinna fyrstu til að verða bólusettir hér á landi.

Fyrstu skammtarnir ættu að duga til að bólusetja fimm þúsund manns en búist er við að Ísland muni fá þrjú til fjögur þúsund skammta í hverri viku til loka mars á næsta ári. Ísland fær samtals 170 þúsund skammta af bóluefni Pfizer og BioNTech sem eiga að duga til að bólusetja 85 þúsund Íslendinga. 

Íslendingar hafa sömuleiðis tryggt sér skammta af Astra Zeneca - Oxford og Janssen - Johnson & Johnson bóluefnunum við COVID-19. Stefnt er að því að hefja afhendingu þess fyrra á fyrsta ársfjórðungi næsta árs og því seinna á þriðja ársfjórðungi.