Lyfjastofnun Evrópu, EMA, hefur hafið flýtimeðferð í mati á tvenns konar bóluefni gegn COVID-19. Annars vegar bóluefni Pfizer/BioNTech og hins vegar bóluefni frá AstraZeneca, í samstarfi við Oxford-háskóla. Þetta kemur fram í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Líkt og greint hefur verið frá leiðir greiningarvinna Pfizer/BioNTech í ljós að þeirra bóluefni virki í 90 prósentum tilfella. Vinna sérfræðinganefndar EMA við áfangamat á bóluefnunum hófst í október. Lyfjastofnun tekur þátt í vinnunni. Pfizer segir að stefnt sé á lokaprófanir í þriðju viku þessa mánaðar.

Fram kemur í svari stofnunarinnar að alla jafna þurfi lyfjafyrirtæki að senda inn öll gögn um virkni, öryggi og gæði lyfja áður en mat hefst. Þar sem um er að ræða víðtæka heilsuvá þá er notast við áfangamat, þar sem gögnin eru metin eftir því sem þau verða tiltæk. Nú er verið að meta gögn sem snúa að gæðum bóluefnisins, þar með talið innihaldsefnum og framleiðsluaðferð, en sérfræðinganefndinni eiga enn eftir að berast margvíslegar upplýsingar.

Markaðsleyfi fyrir bóluefni gegn COVID-19 verður gefið út af Lyfjastofnun Evrópu eftir að öll rannsóknargögn hafa fengið jákvæða umsögn. Óvíst er hvenær sú niðurstaða liggur fyrir.

Fram kemur í svari Embættis landlæknis við fyrirspurn Fréttablaðsins að áætlun um hversu lengi það muni taka að bólusetja landsmenn sé í vinnslu en sé ekki tilbúin til dreifingar.