Bólu­efni Pfizer gegn Co­vid-19 veitir mun minni vörn gegn hinu nýja Ó­míkron-af­brigði en upp­haf­legi af­brigði Co­vid. Þetta er niður­staða nýrrar rann­sóknar vísinda­fólks í Suður-Afríku.

Prófessorinn Alex Sigal, veiru­fræðingur við Af­ri­ca Health Insti­tute í Dur­ban í Suður-Afríku, fór fyrir rann­sókninni. Hann segir að þrátt fyrir að af­brigðið sé erfiðara við­fangs fyrir bólu­efni komist það ekki al­gjör­lega fram­ hjá þeirri vörn sem bólu­efnið veitir og örvunar­skammtar virki vel til að auka virkni bólu­efnis.

Hér má sjá umfjöllun New York Times um rannsóknina.

Þetta eru fyrstu niður­stöður sem birtar hafa verið úr rann­sókn á virkni bólu­efna á Ó­míkron. Sam­kvæmt henni minnka vírus­hamlandi mót­efni í bólu­efnum um fjöru­tíu­falt gegn Ó­míkron miðað við gegn upp­haf­lega af­brigði Co­vid-19. Ó­næmis­virknin dregst „mikið, en ekki al­gjör­lega“ saman að sögn Sigal. Enn á þó eftir að vinna frekar úr upp­lýsingunum og hefur rann­sóknin ekki verið rit­rýnd.

Tólf blóð­sýni voru skoðuð úr fólki sem hafði verið bólu­sett með bólu­efni Pfizer til að meta virkni þess gegn Ó­míkron-af­brigðinu. Í fimm til­fellum virkaði bólu­efnið til að stöðva fram­göngu af­brigðisins.

Ó­míkron-af­brigðið var upp­götvað af vísinda­fólki í Suður-Afríku 25. nóvember og síðan hefur vísinda­fólk um allan heim unnið að rann­sókn þess.