Sér­fræðinga­nefnd Lyfja­stofnunar Evrópu, EMA, hefur mælt með því að á­bending Comirnaty, bólu­efnis Pfizer/BioN­Tech, verði út­víkkuð þannig að börn niður í tólf ára geti fengið bólu­efnið en hingað til hefur bólu­efnið að­eins verið sam­þykkt fyrir 16 ára og eldri.

Að sögn Rúnu Hauks­dóttur Hvann­berg, for­stjóra Lyfja­stofnunar, mun á­bendingin koma inn í markas­leyfið hér á landi á næstunni en það þýðir ekki þar með að börn verði bólu­sett. „Hvort það verði síðan farið í bólu­setningu hjá þessum aldurs­hópi hér, það er bara á­kvörðun sótt­varna­yfir­valda.“

Rann­sókn sem gerð var meðal 2260 barna á aldrinum 12 til 15 ára leiddi í ljós að ó­næmis­svar þeirra væri svipað og hjá ein­stak­lingum á aldrinum 16 til 25 ára sem höfðu fengið bólu­efnið. Ekkert þeirra barna sem fengu bólu­efnið í rann­sókninni greindust með veiruna og var því vörnin 100 prósent.

Mat­væla- og lyfja­eftir­lit Banda­ríkjanna, FDA, upp­færði til­mæli sín um bólu­efnið fyrr í mánuðinum og hafa nú hafist handa við að bólu­setja hópinn. Þá hefur Moderna einnig til­kynnt að þeirra bólu­efni sé virkt meðal barna á aldrinum 12 til 17 ára og hyggjast sækja um breytingu í Banda­ríkjunum í næsta mánuði.