Bóluefni lyfjarisans Pfizer gegn COVID-19 virkar í 95 prósent tilfella og engar alvarlegar aukaverkanir hafa komið fram, þetta kemur fram í tilkynningu frá Pfizer sem greint er frá á vef New York Times.

Samkvæmt greiningavinnu Pfizer og BioNTech sýnir bóluefnið 94 prósent virkni meðal eldra fólks sem er í áhættuhópi.

Íslandi hefur verið tryggður aðgangur að bóluefninu í gegnum Evrópusambandið. Heil­brigðis­yfir­­völd hafa áður sagt að þau muni sam­þykkja bólu­efni sem virkar fyrir að minnsta kosti helming þátt­tak­enda. Í síðustu viku var greint frá að bóluefnið virkaði í minnst 90 prósent tilfella.

Þróun og prófun bóluefnis við COVID-19 hefur gengið mjög hratt fyrir sig en yfirleitt tekur ferli sem þetta nokkur ár. Bóluefnið er gefið í tveimur skömmtum. Pfizer hyggst framleiða 50 milljón skammta fyrir lok árs og 1,3 milljarð skammta fyrir lok næsta árs.

Fleiri bóluefni gegn COVID-19 eru á leiðinni. Greint hefur verið frá því að bóluefni Moderna er talið vera með 95 prósent virkni.

Óvíst er hvenær bóluefnið kemur hingað til lands. Fram kom í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins í síðustu viku að Lyfjastofnun Evrópu, EMA, er með bæði bóluefni Pfizer/BioNTech og bóluefni frá AstraZeneca, í samstarfi við Oxford-háskóla. í flýtimeðferð. Fram kemur í svari stofnunarinnar að alla jafna þurfi lyfjafyrirtæki að senda inn öll gögn um virkni, öryggi og gæði lyfja áður en mat hefst. Þar sem um er að ræða víðtæka heilsuvá þá er notast við áfangamat, þar sem gögnin eru metin eftir því sem þau verða tiltæk. Var í síðustu viku í gangi vinna við að meta gögn sem snúa að gæðum bóluefnisins, þar með talið innihaldsefnum og framleiðsluaðferð.