Niður­stöður þriðja fasa rann­sóknar Pfizer og BioN­Tech á virkni bólu­efnis gegn CO­VID-19 hjá börnum á aldrinum 12 til 15 ára benda til að bólu­efnið sé 100 prósent á­hrifa­ríkt og að það kalli fram sterkt ó­næmis­svar en um er að ræða meiri virkni en hjá ein­stak­lingum á aldrinum 16 til 25 ára í fyrri rann­sóknum.

Albert Bourla, fram­kvæmda­stjóri Pfizer, segir niður­stöðurnar lofa góðu og að þau telji nauð­syn­legt að bólu­setningar fari fram meðal hópsins þar sem börn eru nú að smitast í auknum mæli. Aðrir lyfjarisar rannsaka nú einnig virkni síns bóluefnis hjá börnum.

„Um allan heim þráum við eðli­legt líf. Sér­stak­lega fyrir börnin okkar. Bráða­birgða­niður­stöður sem við höfum séð í rann­sóknum ung­linga benda til að vörn eru sér­stak­lega vel varin með bólu­setningu, sem er mjög hvetjandi í ljósi B.1.1.7 af­brigðisins frá Bret­landi ,“ segir Bourla en ungt fólk smitast í auknum mæli vegna af­brigðisins.

Þau muni koma niður­stöðunum til banda­ríska lyfja- og mat­væla­eftir­litsins, FDA, sem og annarra lyfja­eftir­lits­stofnanna um allan heim, á komandi vikum í von um að hægt verði að hefja bólu­setningar hjá börnum fyrir næsta skóla­ár.

„Það er mjög mikil­vægt að gera þeim kleift að snúa aftur í skóla og hitta vini og fjöl­skyldu á meðan við verndum þau og þeirra ást­vini,“ segir hann enn fremur.

Rannsaka virknina hjá yngri börnum

Að því er kemur fram í til­kynningu frá Pfizer var um að ræða rann­sókn meðal 2260 ung­menna en enginn sem fékk bólu­efnið greindist með veiruna. Af þeim sem fengu lyf­leysu greindust aftur á móti 18 með veiruna. Auka­verkanir af bólu­setningu voru svipaðar og hjá eldri aldurs­hópum.

Í til­kynningunni var einnig farið yfir rann­sókn á bólu­setningum meðal yngri barna en fyrstu bólu­setningar fyrir þá rann­sókn hófust í síðustu viku. Um er að ræða þrjá aldurs­hópa, fimm til ellefu ára, tveggja til fimm ára, og sex mánaða til tveggja ára.

Elsti aldurs­hópurinn fékk sinn fyrsta skammt í síðustu viku og mun seinni aldurs­hópurinn fá sinn fyrsta skammt í næstu viku.