Bóluefni gegn kórónaveirunni, sem vísindamenn við Oxfordháskóla hafa þróað í samvinnu við lyfjafyrirtækið AstraZeneca, er með frá 70 til 90 prósent virkni. Greint er frá þessu á vef Sky News.

Búið er að greina bráðabirgða niðurstöður úr þriðja fasa lyfjaþróunarinnar þar sem tveggja skammta bólusetning sýndi 70,4 prósent virkni. Minni skammtur virkaði í 90 prósentum tilvika en þá fengu þátttakendur í rannsókninni hálfan skammt og svo heilan skammt mánuði síðar. Rannsóknirnar sýna að bóluefnið virkar fyrir mismunandi aldurshópa, þar á meðal fyrir eldra fólk.

Sarah Gilbert, prófessor í bóluefnafræðum við Oxfordháskóla, sem stýrir vinnu vísindamanna við háskólann við þróun bóluefnisins, segir tilkynninguna í dag færa okkur nær því binda enda á hörmungarnar sem hafa fylgt faraldrinum. Þakkaði hún sjálfboðaliðum fyrir þátttökuna og vísindamönnunum sem hafa unnið við þróunina og sagði það forréttindi að fá að vinna að því að binda enda á faraldurinn.

Þátttakendur sem fengu einn og hálfan skammt voru alls 2.741 en þátttakendur sem fengu tvo skammta voru 8.895.

Ísland tekur þátt í að fjármagna rannsóknina við Oxfordháskóla með því að styrkja CEPI, samtök Bill Gates sem fjármagnar rannsóknir og þróun bóluefna um allan heim, og hefur þannig tryggt sér aðgang að þessu bóluefni. Nokkrir aðrir kandídatar hafa einnig reynst árangursríkir og verða því nokkur bóluefni í boði á komandi ári.

Til að mynda virkar bóluefni lyfjarisans Pfizer í 95 prósent tilfella og engar alvarlegar aukaverkanir hafa komið fram. Íslandi hefur verið tryggður aðgangur að bóluefninu í gegnum Evrópusambandið. Heil­brigðis­yfir­­völd hafa áður sagt að þau muni sam­þykkja bólu­efni sem virkar fyrir að minnsta kosti helming þátt­tak­enda.