Bólu­efni Jans­sen gegn CO­VID-19 hefur nú lokið þriðju fasa rann­sóknum en rann­sóknirnar sýna að bólu­efnið geti komið í veg fyrir miðlungs al­var­leg til alvarleg veikindi í 66 prósent til­fella. Þegar kemur að mjög al­var­legum veikindum er bólu­efnið aftur á móti með 85 prósent virkni.

John­son & John­son, fram­leiðandi bólu­efnisins, greindi frá niður­stöðunum fyrr í dag en þar kemur einnig fram að bólu­efnið veiti einnig vernd gegn nýjum af­brigðum kóróna­veirunnar, þar á meðal þess sem var fyrst vart í Suður-Afríku. Þó virðast rann­sóknirnar benda til að virknin sé minni á það af­brigði.

Bólu­efni Jans­sen er ó­líkt öðrum bólu­efnum sem þegar eru komin á markað þar sem að­eins einn skammt af bólu­efninu þarf til að bólu­setja en þó er verið að rann­saka hvort tveir skammtar veiti meiri vernd. Fyrir­tækið stefnir á að fram­leiða milljarð skammta á þessu ári.

Íslendingar þegar undirritað samning

Mat­hai Mam­men, yfir­maður rann­sóknar og þróunar hjá John­son & John­son, segir í sam­tali við CNN að rann­sóknir bendi til að bólu­efnið komi í veg fyrir inn­lögn á spítala og dauðs­föll í öllum til­fellum. Þá sé virknin sú sama óháð aldri og kyn­þátti.

Að sögn Mam­men er verið að vinna í því að veita bólu­efninu neyðar­heimild í Banda­ríkjunum, Bret­landi og Kanada. Banda­ríkja­menn hafa pantað 100 milljón skammta af bólu­efninu, Kanada 38 milljón skammta, og Bret­land 30 milljón skammta.

Þá hafa Ís­lendingar einnig samið við Jans­sen um kaup á bólu­efninu en í desember var Ís­landi tryggt bólu­efni fyrir 235 þúsund ein­stak­linga. Samningurinn er sá stærsti sem ís­lensk yfir­völd hafa gert hingað til.

Annað bóluefni lofar góðu

Þá hefur verið tilkynnt um bráðabirgðaniðurstöður úr þriðja fasa rannsóknum á bóluefni Novavax en bandaríska líftæknifyrirtækið greindi frá því í gær að bóluefni þeirra væri með 89 prósent virkni.

Niðurstöður rannsóknanna voru þær að bóluefnið veitti 95,6 prósent vernd gegn upprunalegu kórónaveirunni en 85,6 prósent vernd gegn nýju afbrigði veirunnar sem varð fyrst vart í Bretlandi. Þegar kom að afbrigði veirunnar sem varð vart í Suður-Afríku var verndin aftur á móti um 60 prósent.

Fyrirtækið greindi frá því í kjölfarið að þau kæmu til með að einbeita sér sérstsaklega að þróun bóluefnis sem myndi virka gegn Suður-afríska afbrigðinu og hafa þegar hafist handa við að þróa bóluefni sem gæti verið notað til endurbólusetningar.