Gert er ráð fyrir að fyrstu skammtarnir af bóluefni Janssen komi til landsins í apríl að sögn Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra en Ísland hefur samið við lyfjaframleiðandann Johnson&Johnson um 235 þúsund skammta af bóluefninu.

Í samtali við Fréttablaðið í gær kvaðst Svandís ekki vita nákvæmlega hversu margir skammtar væru væntanlegir af bóluefninu í apríl en hún stendur enn við áætlun stjórnvalda um að hægt verði að bólusetja alla þjóðina fyrir lok júlí.

Richard Bergström, sem sér um dreifingu bóluefna til Norðurlandanna fyrir hönd Evrópusambandsins, greinir frá því í samtali við RÚV að fyrstu skammtarnir af bóluefni Janssen muni koma til landsins 16. apríl.

Að sögn Bergström er þó ekki um að ræða mikið magn sem kemur í fyrstu sendingu en að fjöldinn muni aukast í maí og í júní. Bóluefnið er sérstaklega áhugavert þar sem aðeins þarf einn skammt af bóluefninu til að ná fram virkni.

Þegar er byrjað að bólusetja með þremur bóluefnum hér á landi, bóluefni Pfizer, Moderna, og AstraZeneca. Bóluefni Janssen fékk síðan skilyrt markaðsleyfi hér á landi þann 11. mars en hingað til hefur dreifingaráætlun ekki legið fyrir.