Lyfja­stofnun Evrópu hefur fengið þrjár til­kynningar um myndun blóð­tappa í kjöl­far bólu­setningar með bólu­efni Jans­sen sem svipa mikið til þeirra auka­verkana sem hafa verið til­kynntar eftir bólu­setningu með bólu­efni AstraZene­ca. Þetta kom fram á blaða­manna­fundi stofnunarinnar sem fór fram í dag.

Bæði bólu­efni Astrazene­ca og Jans­sen, sem John­son&John­son sér um að fram­leiða, eru svo­kölluð veiru­ferju­bólu­efni (e. viral vector vaccine) sem eru þróuð út frá adenó­veiru, en önnur bólu­efni sem Lyfja­stofnun Evrópu hefur sam­þykkt, bólu­efni Pfizer/BioN­Tech og Moderna, eru svo­kölluð mRNA bólu­efni.

Tengsl milli bólusetningar og blóðtappa

Líkt og greint var frá fyrr í dag hefur stofnunin komist að þeirri niður­stöðu að mjög sterk tengsl séu á milli bólu­setningar með bólu­efni AstraZene­ca, Vaxz­evria, og myndun fá­gætra blóð­tappa sam­hliða minnkuðu magni blóð­flagna. Um væri að ræða mjög sjald­gæfa auka­verkun sem fólk ætti að vera með­vitað um.

Auka­verkanirnar sneru að blóð­töppum í heila (e. cerebral venous sinus throm­bosis, CVST), í kvið­holi (e. splanchnic vein throm­bosis), og í slag­æðum en sam­hliða því var magn blóð­flagna einnig minnkað, svo­kallað blóð­flagna­fæð. Flest til­felli CVST voru meðal kvenna yngri en 60 ára en út frá gögnunum er ekki hægt að segja fyrir víst um á­hættu­þætti.

Sterkt ónæmissvar möguleg skýring

Þá var einnig greint frá því að mögu­lega væri sterkt ó­næmis­svar skýringin fyrir slíkar auka­verkanir. Að­spurður um hvort svipuð á­hætta væri fyrir bólu­efni sem þróuð eru á sama hátt og bólu­efni AstraZene­ca, þar á meðal Jans­sen, sagði Peter Ar­lett, yfir­maður vinnu­hóps EMA um gagna­greiningar og að­ferðir, að í klínískum prófunum hafi þrjú slík til­felli komið upp.

„Engu að síður þá eru þetta ein­stak­lega lágar tölur miðað við að 4,5 milljón manns hafi fengið John­son&John­son bólu­efnið á heims­vísu,“ sagði Ar­lett en hann í­trekaði engu að síður að verið væri að skoða málið gaum­gæfi­lega, ekki að­eins fyrir bólu­efni Jans­sen heldur einnig öll önnur bólu­efni.

Sabine Straus, for­maður sér­fræðinga­nefndar EMA um eftir­lit með á­vinningi og á­hættu lyfja, PRAC, greindi enn fremur frá því að hjá öðrum bólu­efnum hafi 35 til­felli um CVST komið upp hjá bólu­efni Pfizer, af 54 milljón manns sem hafi þegar verið bólu­settir, og fimm til­felli hjá bólu­efni Moderna, af fjórum milljónum manna sem hafa verið bólu­settir.