Lyfjastofnun Evrópu hefur fengið þrjár tilkynningar um myndun blóðtappa í kjölfar bólusetningar með bóluefni Janssen sem svipa mikið til þeirra aukaverkana sem hafa verið tilkynntar eftir bólusetningu með bóluefni AstraZeneca. Þetta kom fram á blaðamannafundi stofnunarinnar sem fór fram í dag.
Bæði bóluefni Astrazeneca og Janssen, sem Johnson&Johnson sér um að framleiða, eru svokölluð veiruferjubóluefni (e. viral vector vaccine) sem eru þróuð út frá adenóveiru, en önnur bóluefni sem Lyfjastofnun Evrópu hefur samþykkt, bóluefni Pfizer/BioNTech og Moderna, eru svokölluð mRNA bóluefni.
Tengsl milli bólusetningar og blóðtappa
Líkt og greint var frá fyrr í dag hefur stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að mjög sterk tengsl séu á milli bólusetningar með bóluefni AstraZeneca, Vaxzevria, og myndun fágætra blóðtappa samhliða minnkuðu magni blóðflagna. Um væri að ræða mjög sjaldgæfa aukaverkun sem fólk ætti að vera meðvitað um.
Aukaverkanirnar sneru að blóðtöppum í heila (e. cerebral venous sinus thrombosis, CVST), í kviðholi (e. splanchnic vein thrombosis), og í slagæðum en samhliða því var magn blóðflagna einnig minnkað, svokallað blóðflagnafæð. Flest tilfelli CVST voru meðal kvenna yngri en 60 ára en út frá gögnunum er ekki hægt að segja fyrir víst um áhættuþætti.
Sterkt ónæmissvar möguleg skýring
Þá var einnig greint frá því að mögulega væri sterkt ónæmissvar skýringin fyrir slíkar aukaverkanir. Aðspurður um hvort svipuð áhætta væri fyrir bóluefni sem þróuð eru á sama hátt og bóluefni AstraZeneca, þar á meðal Janssen, sagði Peter Arlett, yfirmaður vinnuhóps EMA um gagnagreiningar og aðferðir, að í klínískum prófunum hafi þrjú slík tilfelli komið upp.
„Engu að síður þá eru þetta einstaklega lágar tölur miðað við að 4,5 milljón manns hafi fengið Johnson&Johnson bóluefnið á heimsvísu,“ sagði Arlett en hann ítrekaði engu að síður að verið væri að skoða málið gaumgæfilega, ekki aðeins fyrir bóluefni Janssen heldur einnig öll önnur bóluefni.
Sabine Straus, formaður sérfræðinganefndar EMA um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja, PRAC, greindi enn fremur frá því að hjá öðrum bóluefnum hafi 35 tilfelli um CVST komið upp hjá bóluefni Pfizer, af 54 milljón manns sem hafi þegar verið bólusettir, og fimm tilfelli hjá bóluefni Moderna, af fjórum milljónum manna sem hafa verið bólusettir.
Did you miss our press briefing on EMA’s safety committee (#PRAC) conclusion on the review of #COVID19Vaccine AstraZeneca and cases of blood clots? You can watch it on EMA’s YouTube channel: https://t.co/BpYBxkk9E6
— EU Medicines Agency (@EMA_News) April 7, 2021