Bóluefni gegn Lyme sjúkdómnum hefur nú komst á lokastig í rannsóknum en ef það fær samþykki eftirlitsaðila yrði það eina bóluefnið gegn sjúkdómnum.

Þetta kemur fram á NPR en það er lyfjafyrirtækið Pfiser í samstarfi við franska lyfjafyrirtækið Valneva sem standa að þróun bóluefnisins.

Gangi tilraunir fyrirtækjanna eftir í þessum þriðja og síðasta fasa rannsókna segja þau að hægt verði að sækja um samþykki fyrir lyfinu árið 2025.

Bóluefnið sem ber nafnið VLA15 mun vernda fólk fyrir sjúkdómnum sem dreifist með flóa og mítlabitum.

Greinist reglulega hér á landi

Lyme-sjúkdómurinn þekkist hér á landi og hafa hingað til í kringum sex til sjö smit greinst á hverju ári.

En aukinn fjöldi skógarmítla hér á landi hefur valdið áhyggjum um að mögulega geti sjúkdómurinn farið að greinast í meira mæli. Enn hefur þó ekki fundist staðfest smit eftir bit innanlands.

Skógarmítlar geta borið bakteríuna Borreli­a bur­gdor­feri sem veldur Lyme-sjúk­dómi í mönnum, en sjúk­dómurinn getur haft mikil á­hrif og lagst á mið­tauga­kerfi manna. Ekki er þó vitað til þess að mítlar hér á landi hafi borið um­rædda bakteríu.

Skógarmítlar berast til landsins með farfuglum á vorin. Þegar þeir hafa drukkið nægilegt blóð detta þeir af fuglunum og geta leynst víða.

Skógarmítill er að öllum líkindum orðinn landlægur en útbreiðsla hans í heiminum er að færast norðar með hlýnandi loftslagi.