Bóluefni gegn hlaupabólu hefur verið ófáanlegt hér á landi frá því 23. júlí síðastliðinn. Það sama er upp á teninginn með tiltekin bóluefni gegn lifrabólgu A og B. Ástæður fyrir lyfjaskorti geta verið margvíslegar, en smitsjúkdómalæknir segir það áhyggjuefni ef að bóluefni og önnur lyf séu ófáanleg hér á landi í lengri tíma. 

Bólusetningar barna gegn hlaupabólu hafa færst í aukana síðustu ár, en eitt barn lést úr hlaupabólu í fyrra. 

Bóluefnið kláraðist á fjórum dögum

Bólusetning gegn hlaupabólu er ekki hluti af reglubundinni bólusetningu barna, en í seinni tíð hefur verið sí algengara að foreldar kjósi að bólusetja börn sín gegn pestinni. Umrætt lyf nefnist Varilrix og hefur sem fyrr segir verið ófáanlegt frá því í júlí á þessu ári. 

Á liðnu ári hefur lyfið ítrekað ekki verið til en það var ófáanlegt frá 22. nóvember á síðasta ári til 16. mars á þessu ári. Þá varð lyfið fáanlegt á ný, en kláraðist á fjórum dögum, eða þann 20. mars.

Í apríl kom bóluefnið á ný til landsins, en hefur verið ófáanlegt frá 23. júlí. Samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun geta ástæður lyfjaskorst verið af ýmsum toga. Vandamál geta komið upp við framleiðslu lyfja, vegna meðhöndlunar í flutningi, eftirspurn getur verið meiri en markaðsleyfishafi gerði ráð fyrir. Þá geta breytingar á löggjöf eða greiðsluþáttöku lyfja einnig haft áhrif á þá veru að eftirspurn eykst og lýsir sér í óvæntum skorti.

Barn lést úr hlaupabólu á Íslandi í fyrra

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, segir að síðustu ár hafi bólusetningar barna gegn hlaupabólum færst í aukana og um tíu prósent foreldra kjósi slíkar bólusetningar. 

Umræða hefur verið um hvort taka eigi þessa bólusetningu inn í almenna bólusetningu barna, en Finnar eru eina þjóðin á Norðurlöndum sem valið hefur þessa leið.

„Það búið að gera hagkvæmnisútreikninga á þessari bólusetningu víða, meðal annars á Íslandi, sem sýnir að þetta er mjög hagkvæm bólusetning, sem og kemur líka í veg fyrir sýkingar af völdum hlaupabólu,“ segir Þórólfur í samtali við Fréttablaðið.

Koma reglulega upp tilfelli af alvarlegri hlaupabólu

„Já, við skrifuðum grein hérna fyrir nokkrum árum síðan þar sem við tókum saman innlagnir barna á Landspítalann með alvarlega hlaupabólu og það var nokkuð um það. 

Svo var eitt barn í fyrra sem lést af völdum hlaupabólum,“ segir Þórólfur en getur ekki tjáð sig frekar um það tilfelli. 

Bendir hann á að þó langflest börn fái væga hlaupabólu þá sé hópur barna sem fái hana ansi þungt. 

„Hlaupabólan sjálf getur valdið miklum sýkingum bæði í húðinni, og getur í stöku tilfellum valdið alvarlegum, lífshættulegum sýkingum“

Aðspurður hvort ekki sé alvarlegt ef að skortur sé á slíku bóluefni í lengri tíma segir Þórólfur vissulega alvarlegt ef að foreldrar vilja bólusetja börn og bóluefnið sé ófáanlegt hér á landi.

„Það er ekki gott ef að svona lyf, eins og svona bóluefni sem eru talsvert notuð eru ekki til á markaðnum. Það er náttúrulega aldrei gott og á ekki að gerast.“

Áhyggjuefni ef nauðsynleg lyf eru ekki til í lengri tíma

Magnús Gottfreðsson smitsjúkdómalæknir segir í samtali við Fréttablaðið að það sé auðvitað áhyggjuefni ef að nauðsynleg lyf og bóluefni séu ekki til hér á landi í lengri tíma. 

Bendir hann þó á að bóluefnið sé ekki hluti af ráðlögðum bólusetningum barna, þó það sé vissulega í sumum öðrum löndum.

„Þetta gerist reglulega að bóluefni séu ekki til og það eru auðvitað margar og mismunandi skýringar sem koma til greina. Stundum er um að ræða lyf sem eru lítið notuð hér á Íslandi og þá getur skapast skyndileg þörf sem erfitt er að mæta,“ segir Magnús.

Sem fyrr segir hefur einnig verið skortur á bóluefnum við lifrarbólgu A og B þó hann hafi ekki verið jafn reglulegur og við hlaupabólu.

Magnús bendir á að ferðamönnum sem ferðast hafa til Asíu og Afríku hafi verið ráðlagt að fara í slíkar bólusetningar og því sé nokkuð alvarlegt ef slík bóluefni séu ekki fáanleg hér á landi í lengri tíma.

Munaðarlaust bóluefni

Bóluefnið Varilrix kemur frá fyrirtækinu GlaxoSmithKline Pharma. 

Kamilla Jósefsdóttir, læknir og verkefnisstjóri sóttvarna hjá embætti Landslæknis, segir bóluefnið nokkuð munaðarlaust í kerfinu en kveðst vita til þess að nokkur áhugi sé fyrir bólusetningunni meðal foreldra.

„Þetta er svolítið munaðarlaust bóluefni því það eru engar opinberar forsendur fyrir því að við séum að skipta okkur af því að það sé ekki til,“ segir Kamilla í samtali við Fréttablaðið. 

Tekur hún sem dæmi að þar sem samningar eru til um bóluefni gegn kýghósta og mislingum, þá fari hið opinbera af stað með látum ef framleiðendur standist ekki samninga. 

„Oft er ekkert hægt að gera því það er auðvitað heimsskortur eða Evrópuskortur en við beitum okkur fyrir því að fá lyf frá öðrum framleiðendum ef að mjög brýnt bóluefni vantar, en þar sem bóluefni gegn hlaupabólu er ekki hluti af kerfinu okkar þá er það bara Lyfjastofnun og framleiðandinn sem bera ábyrgð á því.“

Framleiðandi setur aðrar þjóðir í forgang

Sem fyrr segir hefur lyfið verið ófáanlegt hér á landi nokkuð reglulega síðustu misserin. Kamilla bendir á í því samhengi að framleiðandinn gæti verið samingsbundinn við aðrar þjóðir og þær þjóðir því settar í forgang.

„Þeir forgangsraða þeim sem þeir hafa fengið vilyrði fyrir og þeir eru ekki bundnir samningum við Ísland,“ segir Kamilla. „Þegar þetta er ekki hluti af opinberum samningum þá gerist þetta mjög reglulega og þetta er ekkert eina bóluefnið sem hefur vantað.“

Segir hún það sama upp á teninginn með bóluefni gegn lifrabólgu, en ekki eru til opinber tilmæli um notkun bóluefnanna, önnur en til þeirra sem ætla sér að ferðast á fjarlægar slóðir. „Ég veit hins vegar ekki hvort þetta er af því það er skortur eða hvort framleiðandi hafi lofað bóluefninu annað.“

Íslenskur markaður smár að stærð

Í svörum við fyrirspurn Fréttablaðsins til Lyfjastofnunar segir að lyfjaskortur sé ekki séríslenskt vandamál. Á hinn boginn snúi sérstakur vandi að lyfjamarkaði sem er jafn lítill og sá íslenski.

„Vörunúmer eru fá í samanburði við það sem gerist í fjölmennari löndum, og skorti lyf vegna einhverra vandkvæða, getur hugsanlega verið til aðeins eitt lyf með sambærilegri virkni. 

Birgðir þess lyfs þrjóta þá fljótt. Lyfjastofnun vinnur með markaðsleyfishöfum og heildsölum til að leita lausna þegar skortur á lyfjum kemur upp,“ segir í svari Lyfjastofnunar.