Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur tilkynnt að nú verði boðið upp á bóluefni gegn apabólunni til allra þeirra sem kunna að hafa verið útsetnir fyrir smiti eða sem eru í sérstakri hættu af smiti.
Bóluefnaskömmtum verður úthlutað til þeirra ríkja þar sem flest smit hafa orðið að undanförnu auk þess sem neyðarnefnd hjá Miðstöð sjúkdómavarna og forvarna (CDC) hefur verið virkjuð. Miðstöðin hefur með því meiri sveigjanleika og mannafla til að bregðast við ástandinu.
Forstöðumaður CDC, Rochelle Walensky, segir bóluefnin virka best ef minna en tvær vikur eru liðnar frá mögulegri útsetningu. Það minnki líkurnar á því að vírusinn valdi sýkingu og veikindum.
Tilfellum fjölgar
306 tilfelli hafa verið skráð í Bandaríkjunum hingað til en 4700 tilfelli hafa verið staðfest í 49 löndum á heimsvísu. Fram að þessu hefur bóluefni í Bandaríkjunum aðeins verið í boði fyrir þá einstaklinga sem vitað er að hafa orðið útsettir fyrir vírusnum en nú mun það vera í boði fyrir þá sem hafa grun eða eru í hááhættuhóp.
Sem stendur eru 56 þúsund skammtar í boði af Jynneos bóluefni en 240 þúsund bætast við á næstu vikum og við lok árs eiga skammtarnir að vera 1,6 milljón. Skömmtum verður úthlutað til fylkja í samræmi við smittölur þeirra.
The Biden administration intends to release at least 1.6 million doses of the two-dose Jynneos vaccine for #monkeypox by the end of the fall. The CDC may order more vaccine supply to arrive at the end of 2022 and into 2023. Delivery takes time b/c FDA must inspect the doses. 2/
— Benjamin Ryan (@benryanwriter) June 28, 2022
Mögulegt er að einnig verði notast við eldri útgáfur af bóluefni gegn bólusótt sem er talið einnig virka gegn apabólu ef þörf þykir, þar sem líklegt er að færri munu geta fengið bóluefnið en myndu vilja. Það bóluefni hefur þekktar alvarlegar aukaverkanir og getur verið lífshættulegt fyrir fólk sem er ónæmisbælt, ólétt eða gamalt.
Mikil eftirspurn
Gagnrýnendur segja viðbrögðin vera of lítil og of hæggeng til að ná að uppræta hættuna sem stafar af apabólunni, sérstaklega fyrir það fólk sem er í áhættuhópi. Samkvæmt CDC eru karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum og bólfélagar þeirra í sérstökum áhættuhópi.
Þá kalla sérfræðingar eftir því að fólki standi til boða að fara í apabólu-próf til viðbótar við aðgengi að öruggu bóluefni. Níu þúsund skammtar af Jynneos bóluefninu hafa þegar verið úthlutaðir og með hækkandi smittölum hefur eftirspurnin aukist mikið.