Ríkis­stjórn Banda­ríkjanna hefur til­kynnt að nú verði boðið upp á bólu­efni gegn apa­bólunni til allra þeirra sem kunna að hafa verið út­setnir fyrir smiti eða sem eru í sér­stakri hættu af smiti.

Bólu­efna­skömmtum verður út­hlutað til þeirra ríkja þar sem flest smit hafa orðið að undan­förnu auk þess sem neyðar­nefnd hjá Mið­stöð sjúk­dóma­varna og for­varna (CDC) hefur verið virkjuð. Mið­stöðin hefur með því meiri sveigjan­leika og mann­afla til að bregðast við á­standinu.

For­stöðu­maður CDC, Rochelle Wa­len­sky, segir bólu­efnin virka best ef minna en tvær vikur eru liðnar frá mögu­legri út­setningu. Það minnki líkurnar á því að vírusinn valdi sýkingu og veikindum.

Tilfellum fjölgar

306 til­felli hafa verið skráð í Banda­ríkjunum hingað til en 4700 til­felli hafa verið stað­fest í 49 löndum á heims­vísu. Fram að þessu hefur bólu­efni í Banda­ríkjunum að­eins verið í boði fyrir þá ein­stak­linga sem vitað er að hafa orðið út­settir fyrir vírusnum en nú mun það vera í boði fyrir þá sem hafa grun eða eru í há­á­hættu­hóp.

Sem stendur eru 56 þúsund skammtar í boði af Jyn­neos bólu­efni en 240 þúsund bætast við á næstu vikum og við lok árs eiga skammtarnir að vera 1,6 milljón. Skömmtum verður út­hlutað til fylkja í sam­ræmi við smit­tölur þeirra.

Mögu­legt er að einnig verði notast við eldri út­gáfur af bólu­efni gegn bólu­sótt sem er talið einnig virka gegn apa­bólu ef þörf þykir, þar sem lík­legt er að færri munu geta fengið bólu­efnið en myndu vilja. Það bólu­efni hefur þekktar al­var­legar auka­verkanir og getur verið lífs­hættu­legt fyrir fólk sem er ó­næmis­bælt, ó­létt eða gamalt.

Mikil eftirspurn

Gagn­rýn­endur segja við­brögðin vera of lítil og of hæg­geng til að ná að upp­ræta hættuna sem stafar af apa­bólunni, sér­stak­lega fyrir það fólk sem er í á­hættu­hópi. Sam­kvæmt CDC eru karl­menn sem stunda kyn­líf með öðrum karl­mönnum og ból­fé­lagar þeirra í sér­stökum á­hættu­hópi.

Þá kalla sérfræðingar eftir því að fólki standi til boða að fara í apa­bólu-próf til við­bótar við að­gengi að öruggu bólu­efni. Níu þúsund skammtar af Jyn­neos bólu­efninu hafa þegar verið út­hlutaðir og með hækkandi smit­tölum hefur eftir­spurnin aukist mikið.