Um þúsund manns, þar af sjö Íslendingar, eru í sóttkví á H10 Costa Adeje Palace hótelinu á Tenerife eftir að ítalskur læknir og eiginkona hans, sem dvalið höfðu þar, greindust með COVID-19 veiruna í gær.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir viðbrögðin hér á landi við smiti á Tenerife svipuð og þegar smit hafi komið upp annars staðar í heiminum. „Þetta snertir okkur meira en fyrri fréttir því þarna eru Íslendingar,“ segir hann og bætir við að Íslendingar sem komi heim frá Tenerife, aðrir en þeir sem dvöldu á fyrrnefndu hóteli, verði ekki settir í sóttkví við heimkomu. „Við einblínum á þá sem hafa dvalið á þessu hóteli,“ segir Þórólfur.

„Það hefur bara komið upp eitt tilfelli þarna og á meðan þau eru ekki fleiri þá erum við ekki að fara að setja allt Tenerife undir,“ segir hann.

Enginn meðferð til við veirunni

Þá segir Þórólfur að enginn sértæk meðferð sé til fyrir þá sem greinast með COVID-19 veiruna en að 80 prósent þeirra sem með hana greinist fái einungis væga sýkingu.

„Það þarf bara að gefa fólki ráð um hitalækkandi og slíkt eins og í venjulegri pest en ef fólk fær öndunarerfiðleika eins og getur gerst í stöku tilvikum þessarar veirusýkingar getur þurft að leggja viðkomandi inn á spítala eða jafnvel inn á gjörgæslu. En það eru ekki til nein sérstök lyf til að vinna á veirunni,“ segir hann.

Binur ekki vonir við bóluefni í náinni framtíð

Aðspurður hvort búast megi við bóluefni í náinni framtíð segir Þórólfur svo ekki vera. „Við bindum engar vonir við það að bóluefni verði til á næstunni, það tekur mörg ár að búa til bóluefni sem er öruggt og virkt þannig að það er ekkert inni í myndinni,“ segir hann.

Í gær höfðu um 80 þúsund manns smitast af veirunni á heimsvísu og 2.700 látist. Þórólfur segir að möguleiki sé á að enn fleiri séu smitaðir af veirunni. „Það er alltaf möguleiki og sérstaklega með þessa sýkingu, að ákveðinn hluti og ábyggilega margir sem fá væga sýkingu sem kemur út sem kvefpest leiti ekkert endilega til læknis. Greinist þess vegna ekki en geti samt smitað,“ segir Þórólfur. Þá telur hann ólíklegt að veiran hafi borist hingað til lands án þess að vera greind.

„Það er mjög ólíklegt, allavega á þessum tímapunkti. Hvernig það verður eftir mánuð eða eitthvað, við vitum það ekki.“