Bóluefni við mislingum er við að klárast. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í samtali við Fréttablaðið að von sé á meira bóluefni til landsins á föstudag og það sé mikilvægt að ákveðnir hópar gangi fyrir í bólusetningu, eins og staðan er núna. 

„Það kemur meira af bóluefnum í lok vikunnar. Það er enginn skortur. Það eru til bóluefni á heilsugæslum og annars staðar. Við leggjum áherslu á að það séu ákveðnir forgangshópar sem verða bólusettir fyrst. Það er óbólusettir einstaklingar sem eru í kringum einstaklinga sem að mögulega hafa tekið mislingasmit,“ segir Þórólfur.

Hann segir að ekki sé hægt að áætla hversu margir nákvæmlega það séu sem hafi komist í snert við einstaklinga sem hafi komist í návígi við þá einstaklinga sem hafi smitast af mislingum. Hann segir að bæði séu börn og fullorðnir sem eru óbólusett og mikilvægt sé að fólk kanni í skráningu hvort það eða börn þeirra séu bólusett. Hægt er að skoða slíka skráningu á mínum síðum á www.island.is

„Fólk verður að kíkja á það hver er bólusettur og hver ekki í kringum þessa einstaklinga sem hafa orðið fyrir smiti, eins og á leikskólanum,“ segir Þórólfur.

Mikilvægt að leita ekki á heilsugæslu eða sjúkrahús

Þórólfur ítrekar það sem áður hefur komið fram um að ef fólk gruni að það sé smitað að það leiti alls ekki til heilsugæslustöðva eða á sjúkrahús. Það eigi að hringja í númerið 1700 þar sem hægt er að nálgast allar upplýsingar um bæði mislinga og mislingasmit. Telji fólk að það sé smitað kemur læknir heim til þeirra og tekur sýni. Hann segir að mikið hafi verið hringt í símann í dag.

„Það er mikilvægt að við klárum ekki bóluefni í þá sem hafa ekki brýnustu þörf á bólusetningu núna. Megnið af fólki getur beðið þar til í næstu viku á meðan það er verið að bólusetja þessa forgangshópa,“ segir Þórólfur.

Neyðarfundur var haldinn hjá sóttvarnalækni vegna mesta fjölda mislingatilvika síðan 1977 í gær. Þórólfur segir að á fundinum hafi verið sett niður verklag fyrir bæði almenning, smitbera og þá sem telja sig mögulega hafa smitast. Á heimasíðu Landlæknis var síðan í morgun birtur listi með ýmsum ráðstöfunum sem ákveðið var að grípa til.

Sjá einnig: Neyðar­fundur sótt­varna­læknis vegna fjögurra mis­linga­smita

„Þar er að finna lista yfir þær aðgerðir sem eru í gangi. Skilaboðin eru aðallega þau sem koma fram á heimasíðunni hvað við erum að gera varðandi sóttkví, varðandi bólusetningar sm liggur á og símsvörunina. Sérstaklega ef fólk telur sig vera veikt að rjúka ekki inn á heilsugæslu eða sjúkrahús heldur hringja fyrst og fá leiðbeiningar um hvað eigi að gera,“ segir Þórólfur.

Efla vitjunarþjónustu

Hann segir að verið sé að efla vitjunarþjónustu svo hægt sé að heimsækja fólk heima og aðstoða það þar. Vaktþjónusta heilsugæslu

„Við erum að reyna að passa að það fólk sem gæti verið smitað af mislingum það sé ekki að fara um víðan völl og dreifa þannig smiti,“ segir Þórólfur.

Smitið átti sér stað í vél Iceland Air Connect þann 15.2.2019. Fjórir eru alls smitaðir en upprunalegur smitberi kom frá Filippseyjum. Allir einstaklingarnir voru óbólusettir eftir því sem best er vitað. Þeim einstaklingum sem smituðust af mislingum líður að sögn Þórólfs þokkalega miðað við aðstæður. Enginn hefur verið lagður inn á spítala vegna veikinda. Þórólfur segir að vel gangi að ná til þeirra sem bæði voru í vélinni og þeirra sem þessir smituðu einstaklingar hafi hitt. Það sé samt ávallt erfitt að ná til allra, sérstaklega þegar fólk hafi farið víða.

„Það er ótrúlegt hvernig einn einstaklingur, sem fer víða, hvernig hann hefur komist í tæri við marga og það er hópur sem við vitum ekkert um og náum aldrei í. Hver einstaklingur veit ekki hverja þau hafa komist í tæri við þegar þau fóru út í búð eða eitthvert, þannig það er allskonar svona sem er erfitt að eiga við,“ segir Þórólfur.

Hægt er að lesa um ráðstafanir vegna mislingasóttvarna hér á heimasíðu Landlæknis. Að sögn Þórólfs er hægt að nálgast leiðbeiningar á ensku hjá Landspítalanum og er nú unnið að því að þýða sömu upplýsingar á pólsku.