John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, segir tíst Trumps um að hafa enga vitneskju um að Rússar hefðu reynt að greiða talibönum fyrir að drepa bandaríska hermenn, sýna fram á að Trump leggi ekki áherslu á þjóðaröryggi.

„Það að forsetinn hafi tíst um frétt sýnir hvar áherslur hans liggja, það er, ekki á öryggi þjóðar okkar, heldur hvort það líti út fyrir að hann hafi verið að fylgjast með. Það sem hann er í raun að segja er að þar sem enginn hafi upplýst hann, þá geti enginn kennt honum um,“ sagði Bolton við CNN.

The New York Times greindi frá því fyrir helgi að Rússar hefðu boðið vígamönnum talibana í Afganistan fé fyrir að drepa bandaríska hermenn. Þá hefði Trump verið kynnt þetta á fundi í mars síðastliðnum. Hvíta húsið, rússnesk stjórnvöld og talsmaður talibana neita þessu.

Bolton, sem var ráðgjafi Ronalds Regan og Bush-feðganna í forsetatíð þeirra, gaf nýverið út bók þar sem hann útlistar ýmis vandamál tengd ákvörðunum Trumps. „Vandamálið við Trump hvað varðar þjóðaröryggismál er að hann er ekki í sambandi við raunveruleikann.“