Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, tilkynnti í gær í beinni útsendingu að hann væri með kórónaveiruna. The Guardian skýrir frá.

Bolsonaro, sem er 65 ára, hefur ítrekað gert lítið úr faraldrinum og virt fjarlægðartakmarkanir að vettugi, jafnvel þótt að Brasilía sé með næstflest tilfelli kórónaveirusmits í heiminum. Alls hafa 65.000 manns látist í faraldrinum í Brasilíu og þá hafa 1,6 milljónir smits verið staðfest.

Í mars, skömmu eftir að fyrsti Brasilíumaðurinn lést úr COVID-19, tilkynnti Bolsonaro í sjónvarpsræðu að ef hann fengi veiruna myndi hann hrista hana af sér auðveldlega vegna þess að hann væri svo heilsuhraustur, einkum vegna bakgrunns í íþróttum.

Síðan þá hefur Bolsonaro ítrekað mætt á opinbera viðburði og oftar en ekki án andlitsgrímu.

Grunur um að Bolsonaro væri með COVID-19 vaknaði á mánudag þegar fjölmiðlar í Brasilíu tilkynntu að forsetinn væri með hita og stöðugan hósta. Tölvusneiðmynd var tekin af lungum Bolsonaro, sem sýndi að þau væru í góðu lagi.

Sem fyrr segir hefur Bolsonaro ítrekað gert lítið úr hættum COVID-19 og hvatt Brasilíumenn til að snúa aftur til starfa til að minnka efnahagsleg áhrif veirunnar. Viðbrögð hans við faraldrinum hafa verið harðlega gagnrýnd, bæði heima fyrir og á alþjóðlegum vettvangi.